Tímaflakk með Markúsi, 6. hefti. Bernskuárin.

Page 1

TÍMAFLAKK

með Markúsi Á misjöfnu þrífast börnin best

6. hefti Maí 2023

Markús Örn Antonsson stiklar á stóru

1

Gluggað í dagblöðin að morgni fæðingardags míns.

2
25. maí 1943...

Reykjavík vorra daga

Þegar ég lít um öxl 80 ár aftur í tímann með aðstoð ýmisssa hjálpargagna og heimilda, sem okkur eru opnar nú, er það kvikmynd Óskars

Gíslasonar, “Reykjavík vorra daga”, sem orkar einna sterkast á mig. Myndin er ómetanleg

heimild um lífið í bænum árið 1946 og gefur glögga mynd af þróun hans sem höfuðstaðar.

Tökur myndarinnar hófust 1946 í borgarstjóratíð

Bjarna Bendiktssonar og stóðu alllengi yfir, enda efnið mjög fjölbreytt og víða komið við. Lýsir það stórhug og skilningi borgarstjórans

á heimildargildi kvikmynda

fyrir komandi kynslóðir.

Brot úr þessari mynd hafa

svo sannarlega nýst afar vel

í meðförum þáttagerðarfólks í sjónvarpi á síðari tímum. Með henni var minnst 160 ára afmælis Reykjavíkur sem kaupstaðar. Óskar skráði ekki aðeins sögu afmælisársins í myndinni heldur ná hlutar hennar yfir allmiklu lengra tímabil sögulega séð, því að breytingarnar gerðust ekkert mjög hratt á þessum tíma.

Um það bil þremur árum áður en þetta verkefni Óskars var hafið kom ég í heiminn á fæðingarstofu Landspítalans og get því með réttu tileinkað mér fyrir hönd minnar kynslóðar titil myndarinnar

“Reykjavík vorra daga.” Afar margt í þessari mynd vekur minningar okkar um hið daglega líf bæjarbúa, sem við urðum vitni að á ungum aldri. Þarna bregður fyrir svipmyndum af ýmsu er telst til fyrstu bernskuminninga minna á miklum umbrotatímum rétt eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar og erlendrar hersetu.

Reykvíkingar voru 49.000 árið 1946 og hafði

fjölgað umtalsvert frá upphafi stríðsins. Húsnæðisvandinn var gífurlegur og setti hann svip á kjör fjölskyldu minnar eins og svo margra annarra. Sama er að segja um hinar þungu búsifjar sem landsmenn máttu þola vegna sjóslysa og mannfalls í þeim. Margir íslenskir sæfarendur fórust á styrjaldarárunum. Þrátt fyrir margs kyns þrengingar á fyrstu eftirstríðsárunum vegna húsnæðisskorts, vöruskorts og alls kyns hafta, horfði þjóðin fram á veg í nýstofnuðu lýðveldi, þar sem endurreisn og nýsköpun var hafin á svo mörgum sviðum. Frá blautu barnsbeini varð ég vitni að þessu og fylgdist t.d. spenntur með byltingarkenndum breytingum í

samgöngumálunum með nýjum flugvélum og skipum.

Í þessum kafla

æviminninga minna sem ég skráði í tilefni áttræðisafmælis míns beini ég sjónum að tímabilinu frá því að ég man fyrst eftir mér og fram til upphafs sjötta áratugar síðustu aldar. Elsta leifturmyndin í mínu hugskoti er af brunarústunum við Amtmannsstíg í nóvember 1946. Mörg hús brunnu. Þá var ég þar á vettvangi þriggja ára gamall að skoða verksummerki. Það var margt sem drengur á forskólaaldri uppgötvaði og velti fyrir sér. Við Reykjavíkurbörn á þessum tíma deilum sameiginlegri reynslu, bjartri og þroskandi við undirspil brauðstritsins.

3
MÖA
Brunarústirnar við Amtmannsstíg.

Frumbernska í húsum forfeðra

Blaðamenn Reykjavíkurblaðanna áttu tæpast orð til að lýsa veðurblíðunni sem bæjarbúar höfðu notið næstsíðustu helgi í maí 1943.

Hannes á horninu, fastapenni Alþýðublaðsins, skrifaði í dálk sinn í blaðinu þennan morgun:

“DAGURINN í fyrradag var fagur og góður. Það var listigarðsdagur og Arnarhólsdagur. Skiljið þið hvað ég á við? Jú, þið skiljið það. Við lágum í stórum hópum í garðinum við Tjörnina og á Arnarhóli. Verður sumarið svona? Ég gekk um gamla kirkjugarðinn á sunnudagínn. Ég hitti þar mann á áttræðisaldri, sem var að hlúa að látnum bróður sínum. Hann sagði: „Sumarið verður gott.! Það er ekkert að marka, þó að vorið væri erfitt”.

Blöðin skýra frá því að séra Friðrik Friðriksson sé 75 ára í dag, þriðjudaginn 25. maí 1943.

Á þriðju og efstu hæð í hinni

upphaflegu, 13 ára gömlu byggingu Landspítalans, er fæðingardeild hans til húsa með 12 rúmum fyrir sængurkonur. Þar er lítill snáði nýkominn í

4
Bertha móðir mín á hárgreiðslustofunni.

heiminn, og deilir afmælisdegi með séra Friðrik, æskulýðsleiðtoganum og stofnanda KFUM, sem orti:

Enginn þarfa að óttast síður en guðs barna skarinn fríður, fugl í laufi innsta eigi, ekki stjarna á himinvegi Svo er enda ógn og stríðin, upp mun renna sigurtíðin, oss þá kallar heim til hallar himna Guð er lúður gjallar.

Í tilefni af hinum sameiginlega afmælisdegi tek ég oft vel undir þegar sálmar séra Friðriks eru sungnir við messur í Dómkirkjunni.

Fæðingin hafði gengið vel árla nætur og heilsaðist móður og syni vel. Nýr borgari fæddur í Konungsríkinu Íslandi. Bæjarbúar í Reykjavík eru um 43.000. Móðurmjólkin handa drengnum er naumt skömmtuð og þarf hann að fá ábót hjá annari konu, vandalausri. Jóhanna Friðriksdóttir, yfirljósmóðir hafði tekið á móti drengnum. Hún tjáði móðurinni seinna um morguninn að sig hefði dreymt vel þegar hún hallaði sér eftir að hafa tekið á móti sveinbarninu.

Bertha Karlsdóttir var 22 ára gömul hárgreiðsludama, með sveinspróf frá Iðnskólanum í júlí 1942 og hafði starfað sem nemi á hárgreiðslustofu Kristínar Ingimundardóttur í Kirkjuhvoli. Hún var fædd og uppalin á Frakkastíg 9 og bjó þar nú á efri hæðinni í húsinu, sem afi hennar byggði. Þar var hún alin upp ásamt Markúsi bróður sínum, hjá afa sínum og ömmu undir verndarvæng Ásu föðursystur þeirra. Faðirinn Karl Markússon og norsk eiginkona hans Ingeborg Tengelsen höfðu flust af landi brott með fjögur börn sín mörgum árum áður og sest að í Arendal í Noregi. Berthu og Markús skildu þau eftir í umsjá foreldra Karls, Markúsar Þorsteinssonar, söðlasmiðs, og Jóhönnu Sveinbjarnardóttur, sem bæði voru fædd og uppalin í Hrunamannahreppi en fluttu til Reykjavíkur í lok 19. aldar. Bjuggu

5
Bertha á fermingardaginn sinn, 28. apríl 1935. Hún var fædd 16. maí 1921. Vinir og vandamenn komu í kaffi á Frakkastíg 9. Foreldrar Berthu voru fjarstaddir. Karl Markússon og Ingeborg Tengelsen höfðu flutt með systkini Berthu mörgum árum áður til Noregs og bjuggu í Arendal.

þau á nokkrum stöðum í miðbæ Reykjavíkur þar til Markús reisti húsið á Laugavegi 47 og síðan á Frakkastíg 9, þar sem fjölskyldan bjó lengst af. Markús langafi minn var Berthu sonardóttur sinni góður afi og uppalandi en orðinn aldurhniginn og féll frá árið 1936 þegar Bertha var 15 ára gömul. Jóhanna amma hennar dó 1939; hafði verið mikil dugnaðarkona en þótti skapstygg og kröfuhörð. Ása Markúsdóttir annaðist sjúka foreldra sína um langt árabil heima fyrir og það kom þá líka í hennar hlut að ala önn fyrir systkinunum Berthu og Markúsi.

Þegar hér var komið sögu hafði Hovard Markús, 25 ára gamall, verið búsettur um skeið í Noregi, þjónaði um skeið í norska hernum á Jan Mayen og lenti í slarki, sem fylgdi honum alla lífsleiðina. Ása reyndi að sjá heimilinu farborða með kennslu byrjenda í píanóleik og hlutastarfi sínu í Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar og síðar Austurbæjarútibúi hennar, lítilli verslun á Laugavegi 34. Fjárráðin voru knöpp og í öllu sparað til hins ítrasta. Soðin ýsa eða skata og saltfiskur og grjónagrautur svo oft á borðum að börnin hryllti við tilhugsuninni.

Frakkastígur 9, timburhús reist árið 1901,

Ása Markúsdóttir, afasystir mín á Frakkastíg 9, ól móður mína upp og gekk mér í ömmu stað. Hún var einhleyp og afgreiddi í áratugi í Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar. Ása var listunnandi, lék sjálf á píanó, las nýjustu bækur, sá kvikmyndir og fór í leikhús, á tónleika og málverkasýningar. Ég fékk að njóta margs þessa með henni þegar hún veitti mér “menningarlega tilsögn”.

kjallari og tvær hæðir með þröngu risi, varð með árunum vaxandi fjölskylduhús. Eftir að Jóhanna og Markús voru látin bjó Ágúst Markússon, veggfóðrarameistari, bróðir Ásu, á neðri hæðinni ásamt Guðrúnu Guðmundsdóttur eiginkonu sinni og börnunum Herði, Kristínu, Erlu og Jóhanni. Mikill samgangur var á milli hæða en töluverður munur á atlætinu, sem börnin nutu. Bertha fór ung að vinna í verslunum í nágrenninu, bakaríi og kjötbúð og í Kexverksmiðjunni Frón við Skúlagötu. Skólagangan miðaðist við að hún þurfti að búa sig undir að komast sem allra fyrst út á vinnumarkaðinn. Hún átti auðvelt með námið í Iðnskólanum, þar sem hún eignaðist líka góða vini, ekki síst hinar verðandi hárgreiðsludömur. Hún stundaði sund í frítímum og spilaði öll nýjustu dægurlögin á píanó. Hún bjó yfir þeim hæfileka að geta leikið lögin eftir eyranu þegar hún hafði heyrt þau einu sinni í útvarpinu.

Bertha hefur örugglega litið í dagblöðin, þar sem hún lá uppi á lofti á Landspítalum þennan þriðjudagsmorgun, 25. maí 1943. Hún fylgdist alltaf vel með fréttum og almennri umræðu. Það er skýrt frá því að sumarið sé komið, því að um helgina fóru fram fyrstu kappleikir sumarsins

6

á íþróttavellinum. Þar var mikill mannfjöldi og mikil eftirvænting. Ungu piltarnir í ýmis konar búningum komu út á völlinn og kepptu um fyrstu sætin á mótinu, sem var að byrja. Vafalaust hefur Bertha hugsað til þess að Anton barnsfaðir hennar hafi verið þar viðstaddur. Um það fer engum sögum. Hann hefur örugglega ekki verið viðstaddur fæðinguna. Slíku hefði Jóhanna Friðriksdóttir, yfirljósmóðir, án efa lagt blátt bann við eins og tíðarandinn var þá. Anton, sem einnig var 22 ára gamall, var að ljúka íþróttakennaraprófi frá Laugarvatni um þetta leyti og nýbúinn að ráða sig til starfa til Keflavíkur í vetrarbyrjun að þjálfa æskufólk þar og átti fyrir höndum áframhaldandi störf sem þjálfari og erindreki fyrir Íþróttasamband Íslands. Ferð vestur á Snæfellsnes var ráðgerð næsta vetur en eftir áramót myndi hann starfa hjá Ungmennasambandi Eyjafjarðar og SuðurÞingeyinga.

Þau höfðu kynnst í Iðnskólanum og Sundhöllinni Bertha og Toni, eða Addi eins og hann var líka kallaður. Af gömlum jólakortum má ráða að þau fengu kveðjur frá sameiginlegum vinum um jólin 1941. Bertha umgekkst systur Tona og var góð vinkona Auðbjargar, sem jafnan var kölluð Auja. Ótímabær þungun og umtal um lausaleikskrakkann var nokkuð sem Bertha þurfti að takast á við eins og margar ungar stúlkur gerðu á þessum tíma. Kannski var það einhver huggun harmi gegn hjá fólkinu á Frakkastígnum, að hún hafði þó ekki verið í ástandinu. Vinkonur Ásu duldu ekki væga hneykslun sína yfir þessu framferði “stelpunnar”. Um ráðagerðir þeirra Antons og Berthu lá allt á huldu. Ýmsum, sem til þekktu, fannst þau of ólík til að nokkurt framhald yrði á sambandi þeirra. Anton hafði frá blautu barnsbeini verið kappsamur íþróttamaður, sem lagði aðaláherslu á tugþraut og fimleika. Marga viðurkenningu hafði hann hlotið og hann hafði metnað til að miðla ungu fólki af reynslu sinni, eins og lærifeður hans í íþróttunum höfðu gert, þeir Benedikt Jakobsson og Vignir Andrésson. Meðal annars fyrir áhrif íþróttaleiðtoganna hafði Anton gengið í lið með þjóðernissinnum

7
Húsið sem langafi minn reisti á Frakkastíg 9 árið 1901 stendur enn. Þar átti ég heima fyrstu ár ævinnar og reyndar miklu lengur. Markús og Jóhanna héldu hesta og ær á Frakkastígnum Markús langafi minn var söðlasmiður en flutti líka inn orgel og saumavélar.

Anna Pálsdóttir amma mín í föðurætt, var fædd í Neðri-Dal í Biskupstungum, ólst þar upp og í Auðsholti. Hún kom ung í Ánanaust í Reykjavík og giftist Birni Jónssyni, skipstjóra, sem þar var fæddur og upp alinn. Þau eignuðust 13 börn. Myndin var tekin þegar hún varð sextug, hinn 17. september 1948. Amma Anna lést 6. desember 1961.

og var ósjaldan fánaberi á útifundum þeirra, 15 ára gamall. Glæsilegt íþróttauppeldi æskunnar í þriðja ríkinu heillaði margan KR-inginn og annað íþróttaáhugafólk hér í fásinninu. Ólympíuleikarnir í Berlín 1936 ýttu undir það. Antoni var líka iðulega falið að vera fánaberi í fararbroddi við skrúðgöngu íþróttafólks í bænum af ýmsu tilefni. Bertha var meira gefin fyrir tónlist og tískustrauma enda fylgdi það starfinu að hugsa um útlit, geta tekið þátt í kaffispjalli og rætt um allt milli himins og jarðar við ungu konurnar og fínu frúrnar í stólnum á hágreiðslustofunni. Hún átti margar vinkonur á svipuðum aldri, sem fóru út að skemmta sér saman léttar og kátar, sumar hverjar meira að segja með breska eða ameríska offísera upp á arminn. Þær voru í “bransanum”.

Anton kom frá barnmörgu heimili vestur í Ánanaustum og ákvað að hefja nám í bakaraiðn, sem hann stundaði hjá Sveini Hjartarsyni bakarameistara á Vesturgötunni í þeim tilgangi að afla sér tekna til að geta farið síðar í íþróttakennaraskólann á Laugarvatni. Björn Jónsson, skipstjóri á línuveiðaranum “Sigríði” RE 22 og Anna Pálsdóttir, kona hans, sem

bjuggu í föðurhúsum Björns í Ánanaustum, höfðu eignast 13 börn og voru þau komin á fullorðinsaldur en ein dóttir var þá látin. Björn hafði verið aflasæll ungur skipstjóri á skútum og síðar á línuveiðaranum sem hann átti í félagi við aðra. Hann tók syni sína unga með sér til sjós en ólíkt bræðrum sínum ætlaði Anton ekki að leggja fyrir sig sjómennsku. Björn faðir hans kenndi sjúkleika og hætti á sjó 1942 en naut þess að vera heima á Sólvallagötu 57 hjá Önnu sinni og fara stundum í heimsóknir til ættmenna í Hvítársíðunni og víðar í Borgarfirði.

Við yfirferð blaðanna 25. maí 1943 á Landspítalnum kann Bertha Karlsdóttir að hafa rekist á þessa litlu tilkynningu á norsku:

FRELSESARMÉEN norsk möte i kveld kl . 8 –Alle hjertelig velkommen.

Henni hefur ef til vill orðið hugsað til Ingeborg móður sinnar, sem var einmitt herkona í Arendal og lék á gítar og söng á útisamkomum með Hjálpræðishernum. Móður sína hafði hún ekki augum litið frá því í barnæsku, þegar fjölskyldan kvaddi Ísland. Það var eitthvað um

8

bréfaskriftir og Karl sendi póstkort úr ýmsum fjarlægum höfnum á jarðarkringlunni. Hann var bryti á norskum olíuskipum. Karl hafði látist 1942. Nú voru erfiðir tímar í Noregi, sultur og seyra. Fólkið á Frakkastígnum gerði eins og svo margir aðrir Íslendingar að senda gjafir til Noregs í gegnum Rauða krossinn. Auk þess hefur Norræna félagið beitt sér fyrir fatasöfnun handa Norðmönnum og hundruð þúsunda króna hafa safnast saman í peningasamskotum, sem ýmis félög hafa staðið fyrir. En fréttir af fjölskyldunni í Arendal í sendibréfum komu ekki fyrr en að stríðinu loknu.

Þær eru niðurdrepandi þessar stríðsfréttir sem verið hafa helsta efni blaðanna í vel á fjórða ár. Sprengjumagnið er talið í hundruðum þúsunda tonna. Aðalfyrirsögn Morgunblaðsins þennan morguninn er: ”100.000 smál. varpað á þýskar borgir” Það var skammturinn, sem Þjóðverjar höfðu fengið frá stríðsbyrjun. Í fyrrinótt var 2000 tonnum kastað á Dortmund. Mesta loftárás styrjaldarinnar og var borgin eitt eldhaf að sögn blaðsins. Þjóðviljinn gerði þessum hernaðaraðgerðum góð skil og sagði einnig frá verkalýðsbaráttunni heima fyrir. Dýrtíðin á Íslandi ætlar alla að drepa og Alþýðublaðið segir frá því að fyrirsjáanlegar séu enn meiri hækkanir á vörum því að Eimskipafélagið hafi tilkynnt 50% hækkun farmgjalda á Ameríkuleiðinni sem er líflína Íslendinga um þessar mundir. Það eru mikil tímamót í vændum. Það hillir undir að Ísland verði sjálfstætt lýðveldi og unnið að stofnun þess á næsta ári. Dagblaðið Tíminn skýtur nokkrum föstum skotum að andstæðingum sínum í Sjálfstæðisflokknum í blaði sínu þennan dag:

“17. júní. Sjálfstæðisflokkurinn hefir reynt að stela sjálfstæðismálinu og reynt að eigna sér það. Hann hefir reynt að stela íslenska fánanum og eigna sér hann. Nú ætlar hann líka að stela 17. júní, sem á að vera helsti þjóðhátíðardagurinn. Flokkurinn ætlar nú að efna til sérstakrar samkomu þennan dag. Hversu lengi á Sjálfstæðisflokknum að haldast slíkur þjófnaður uppi?¨

9
Anton Björn faðir minn útskrifaðist sem íþróttakennari vorið 1943. Amma mín og afi, Anna og Björn, hófu búskap á æskuheimili hans í Ánanaustum en bjuggu síðar í húsi sínu á Sólvallagötu 57.

Berthu verður sjálfsagt litið á auglýsingu frá Dyngju á Laugavegi 25, en þar starfar Rúna kunningjakona hennar sem á heima í stórhýsinu “Ljóninu” á Laugavegi 49. Auglýstir eru silkisokkar í Dyngju, frá kr. 9, 30 parið og bómullarsokkar frá kr. 2,75. Sumar smáauglýsingar blaðanna undirstrika hinn óviðráðanlega húsnæðisskort, sem þjakar bæjarsamfélagið í Reykjavík.

Sannvirði

Maður, með konu og 2 uppkomin börn, óskar að taka á leigu íbúð 3 – 4 herbergi og eldhús. Honum er kunnur sá gífurlegi kostnaður, sem er við byggingar húsa, er viðbúinn að taka fullt tillit til kostnaðar og áhættu viðkomandi húseigenda. Tilboð merkt „Sannvirði” sendist afgr. Alþýðublaðsins sem allra fyrst.— Mikil nauðsyn fyrir hendi.

Og þessi birtist í Morgunblaðinu:

K a up k a u p s Óska eftir að fá 1- 2 herbergja íbúð með eldhúsi og öðrum þægindum um næstu mánaðamót eða sem allra fyrst. - Get útvegað góða stúlku í vist handa leigjanda. Tilboð merkt „Vetrarstúlka — 6 7 1 “ sendist blaðinu fyrir 1. júní.

Til að hefja sig upp úr hinum grámyglulega hversdagsleika hefur Bertha kannski farið yfir skrítlurnar í dagblöðunum. En sérhver hafði vafalaust sinn húmor fyrir þessu léttmeti með morgunkaffinu í Mogganum:

”Mjer þykir það sannarlega leitt”, sagði hótelhaldarinn við tvo menn, sem báðu um gistingu, ”en þið verðið að sofa saman’’, „Það er alt í lagi”, svöruðu mennirnir.

„Jæja, það er ágætt”, sagði hótelhaldarinn, „ykkur mun áreiðanlega líða vel í nótt: Þetta er ágætis fjaðrarúm.”

Klukkan 2 um nóttina vakti annar maðurinn fjelaga sinn.

„Jæja, Dick, nú verðurðu að skifta við mig á stað í rúminu”,sagði hann, „nú er það jeg, sem á að liggja á fjöðrunum”.

Skyldi einhver halda að Morgunblaðið hafi verið svo frjálslynt og á undan sinni samtíð að birta þetta sem hommabrandara þá er það alvarlegur misskilningur. Einhver húsgagnabólstrari við Hverfisgötuna, hefur örugglega búið þennan til og hlegið rosalega eftir sínu faglega skopskyni.

Það draup sem sé ekki léttleikinn af síðum dagblaðanna um þessar mundir. Ung kona, nýorðin móður fann kannski einhver ný tilbrigði í efnistökum við sitt hæfi í vikublöðunum, Fálkanum og Vikunni. Þau eru prentuð á betri pappír en dagblöðin og geta þess vegna birt ljósmyndir með sæmilegum árangri. Myndamótin eða klissjurnar eru dýrar og þess vegna taka vikublöðin fegins hendi við myndamótum sem herstjórnin skaffar þeim af stríðsrekstrinum úti í heimi. En það birtast í bland myndir af frægu fólki, kvikmyndastjörnunum og eitthvað af tískumyndum. Í Vikunni er birt frétt með myndum af ungum Íslendingum sem voru að ljúka flugnámi hjá flugskóla Konna Jóhannessonar, flugmanns af íslenskum ættum í Manitoba í Kanada. Á myndinni hefur Bertha

þekkt a.m.k. tvo þeirra, Smára Karlsson og Alfreð Elíasson, sem síðar urðu flugstjórar og brautryðjendur hjá Loftleiðum. Smári var hálfbróðir Berthu, fæddur utan hjónabands, en Alfreð góður kunningi úr Reykjavík sem snemma fór að vinna fyrir sér með því að keyra leigubíl.

Útvarpsdagskráin hjá Ríkisútvarpinu er ekki glaðværðin uppmáluð þetta kvöldið í maí 1943 fremur en önnur:

20,00 Fréttir.

20,30 Erindi: Hraðinn og maðurinn, (dr. Broddi Jóhannesson).

20,55 Tónleikar Tónlistarskólans: Sónata fyrir celló (dr. Edelstein) og píanó (dr. Urbantschitsch) eftir Gríeg.

21,20 Hljómplötur: Kirkjutónlist.

21,50 Fréttir. Dagskrárlok.

Ríkisútvarpið fékk drjúgar tekjur af því að leigja

10

ameríska hernum afnot af útvarpsstöðinni á Vatnsenda á þeim tímum dagsins þegar það sendi ekki eigin dagskrá. Leigutekjurnar voru settar í framkvæmdasjóð, sem síðar átti að nýta til að reisa glæsilega útvarps- og sjónvarpshöll á Melunum. Hönnun var hafin í Ameríku. Í ameríska útvarpinu sem sendir út til setuliðsmanna í Reykjavík er undirtónninn aðeins léttari en í hefbundinni dagskrá Ríkisútvarpsins.:

Ameríska útvarpið í dag:

13.00-13.35 Þátturinn „Takið undir”. Söngvar Richard Crooks.

15.00-17.13 Debussy-tónleikar. Negrahljómlist. Viðtal um Ísland, Ásgeir Ásgeirsson.

22.00-23.15 Gamanþáttur. Nýjustu alþýðusöngvar.

Þarna hefur Ásgeir síðar forseti Íslands komið að hljóðnemanum hjá Kananum til að fræða útlendu piltana í setuliðinu um Ísland og Íslendinga.

Úr gluggum fæðingardeildarinnar sést vel yfir nýja flugvöllinn í Vatnsmýrinni, þar sem Bretar og Bandaríkjamenn hafa aðstöðu. Ótal flugvélar hefja sig til flugs og aðrar koma inn til lendingar, sumar úr löngu úthaldi við kafbátaleitina, aðrar á síðustu bensíndropunum eftir langflug vestan um haf í ferjuflugi til meginlandsins, eða með fyrirmenn í leyniferðum milli landa bandamanna. Í Vikublaðinu Fálkanum er einmitt sagt frá Andrew, yfirhershöfðingja bandaríska hersins í Evrópu, sem fórst í flugslysi á Reykjanesskaga, þegar flugvél hans á leið vestur um haf var að búa sig til lendingar á Keflavíkurflugvelli fyrir nokkrum vikum. Bæjarbúum Í Reykjavík stendur stuggur af lágflugi þessara herflugvéla yfir bænum, ekki síst yfir Miðbæjarbarnaskólanum og Landspítalanum. Vart hefur Berthu rennt grun í að innan fárra ára myndi hún hafa flugvélar æðandi um rétt við eldhúsgluggann hjá sér á Flugvallarveginum. Þá varð ekki séð fyrir að þrem árum seinna yrðum við flutt í lítið braggahverfi fyrir neðan Pólana.

m.a.: “Hús þetta - LANDSSPÍTALINN- var reistur fyrir fje, sem íslenskar konur höfðu safnað

11
Björn Jónsson var farsæll skipstjóri á skipi sínu línuveiðaranum “Sigríði” RE 22 og gerði það gott á síld og vetrarvertíðum. Karl Markússon, skrifaði sig Marcussen, var bryti á norskum farskipum og sigldi um öll heimsins höf m.a. á olíuskipinu “Thordis”. Austan við bæinn reis Landspítalinn og tók til starfa 1930. Upphaflegur rúmafjöldi var 92. Í hornstein spítalans sem lagður var 15. júní 1926 af Hennar hátign Alexandrinu, drottningu Íslands og Danmerkur, standa eftirfarandi orð, og Alþingi veitt á fjárlögum til þess að: LÍKNA OG LÆKNA.”

Á Frakkastíg 9 var komið kornabarn í húsið, hið fyrsta í rúma tvo áratugi. Ása frænka á efri hæðinni var ógift og barnlaus og orðin 46 ára gömul. Hjá henni voru móðir og sonur komin til að búa um óákveðinn tíma. Þeirra framtíð var óráðin gáta. Segir fátt af fyrstu mánuðum í ævi drengsins annað en að hann dafnaði vel, varð fljótt feitur og pattaralegur. Hressilegur í viðmóti, af myndum að dæma, en seinn til að tala. Ása sagði frá því síðar meir að hún hefði farið með hann stolt út að keyra í barnavagni og sýnt hann kunningjakonu, sem hún mætti á leiðinni og vildi sýna henni ”fallegasta barn í heimi”.

Lögð var áhersla á góða heilsu og hraustlegt útlit sonarins. Anton faðir hans hafði fært honum ljósalampa með kolbogaljósum. Sveinninn virðist snemma hafa haft einhverjar skoðanir á ágæti þessarar heilsuræktar en var engu að síður settur í ljósböð heima við.

12
Horft opnum og björtum augum ungbarnsins til óráðinnar framtíðar. Með mömmu heima á Frakkastíg.

Svipurinn á vinkonunni varð afskaplega vandræðalegur, en loks gat hún stunið upp: ”Ég veit það nú ekki. En ég viðurkenni að hann er nú ósköp myndarlegur.”

Anton faðir minn kom í heimsóknir og syninum færði hann meðal annars lampa með kolbogaljósi, sem var fremur frumstæður undanfari ljósabekkjanna og átti að fylla börn og fullorðna fjöri og þrótti og gefa hraustlegt útlit. Hann lét soninn gera líkamsæfingar, grípa um fingurna á sér og setjast upp í vöggunni. Margsinnis. Einu sinni sem oftar var Anton í heimsókn, að kvöldi 25. nóvember 1943. Hann var að kveðja son og barnsmóður sína og hafði Albert Guðmundsson, ungur vinur hans og efnilegur knattspyrnumaður, slegist í för með honum til að sjá drenginn. Albert var líka kominn í von um að hitta Diddý, Kristínu Ágústsdóttur, frænku mína á neðri hæðinni.

Auðvitað grunaði engan að þetta væri síðasta skilnaðarstund Antons á Frakkastígnum. Hann hafði tekð að sér íþróttakennslu vestur á Snæfellsnesi. Bjartsýnn og kátur í bragði hélt hann niður að höfn síðar um kvöldið og um borð í vélbátinn “Hilmi” ÍS 39 frá Þingeyri, mánaðargamalt 87 tonna skip smíðað hjá skipasmíðastöð KEA á Akureyri. “Hilmir” var um þessar mundir í vikurflutningum frá Arnarstapa til Reykjavíkur. Anton hafði frétt af bátsferðinni hjá Hreiðari Þ. Jónssyni kunningja sínum og knattspyrnumanni, þegar þeir hittust niðri í miðbæ fyrr um daginn. Heiðar var nú matsveinn um borð. Anton hafði meðferðis töluvert af áhöldum til kennslunnar og því kom sér vel að fá flutning með skipi. Annars hafði hann ætlað að taka rútuna nokkru seinna.

“Hilmir” fórst á Faxaflóa í slæmu veðri aðfaranótt föstudagsins 26. nóvember með sjö manna áhöfn og fjórum farþegum. Leit úr lofti og af sjó var árangurslaus. Margar tilgátur voru uppi um orsakir slyssins: tundurdufl, árekstur við herskip, því að miklar ferðir stórra bryndreka höfðu verið inn í flotastöðina í Hvalfirðinum þessa nótt, ellegar þá að “Hilmi”

13
Góðir vinir og félagar í íþróttunum, Albert og Anton. Vélbáturinn “Hilmir” frá Þingeyri var nánast nýr þegar hann fórst. Harmafregnin á forsíðu Morgunblaðsins 30. nóvember 1943.

hefði skyndilega hvolft í sviptivindi. Leitinni var hætt eftir tvo sólarhringa og skipið talið af.

Í Morgunblaðinu birtist svohljóðandi auglýsing miðvikudaginn 5. janúar 1944:

Minningarguðsþjónusta

fer fram, að tilhlutun vorri, í Dómkirkjunni í dag 5. jan. kl. 2 e. h., um þá fjelaga vora:

Anton B. Björnsson og

Hreiðar Þ. Jónsson

sem fórust með v.b. Hilmir.

Íþróttasamband Íslands, Knattspyrnufjelag Reykjavíkur, Knattspyrnufjelagið Víkingur

Í minningargrein um Anton Björn Björnsson

í Morgunblaðinu sagði Erlendur Pétursson, formaður KR, þetta m.a.

”Hann naut tilsagnar ágætra íþróttakennara og stundaði æfingar af mikilli kostgæfni og samviskusemi, enda varð hann brátt í fremstu röð jafnaldra sinna. Hann var mjög fjölhæfur íþróttamaður og því ágætur fjölþrautarmaður og um skeið var hann tugþrautarmeistari.

Í fimleikum náði hann slíkri snilli, að hann mun hafa verið, hin síðari árin, fremsti fimleikamaður landsins. Hann var einn sá glæsilegasti fimleikamaður, sem jeg hef sjeð. Í hverri keppni var hann yfirlætislaus og prúður, og drengskapurinn var honum í blóð borinn.” –”Því var það, að hann ákvað að fara á íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og þaðan útskrifaðist hann síðastliðið vor. Fyrst um sinn var hann svo ráðinn umferðakennari Íþróttasambands Íslands. Byrjaði hann starf sitt hjá íþróttafjelögunum í Keflavík og var búinn að vera þar rúman mánuð með íþróttanámskeið. Svo vel tókst honum þetta nýja starf, að Keflvíkingar óskuðu þess að hann þyrfti aldrei að fara frá þeim aftur. Komu í ljós, eins og vænta

Anton fór oft fyrir íþróttafólki sem fánaberi við opinber tækifæri. Hér æfir hann sig með þjóðfánann á lóð KRheimilisins í Bárubúð við Vonarstræti, þar sem Ráðhúsið stendur nú.

14
Glaðlyndur, ungur maður heima á Sólvallagötu. Reglusemi og líkamshreysti voru einkennandi fyrir viðhorf hans til lífsins.

mátti, óvenjulega góðir kennarahæfileikar hjá honum. Hann átti því mikla framtíð í vændum í þessu starfi og æska landsins farsælla ávaxta að njóta. En hjer er svo sagan á enda. 22 ára er hann fallinn í valinn. Kallaður heim. Og heimkoman verður honum fögur. Hann átti Krist að vini.”

Jóhann Bernhard, sem var kunnur KR-ingur og síðar ritstjóri Íþróttablaðsins, skrifaði í Vísi:

”Að þessu sinni mun ekki fjölyrt um hin ýmsu afrek Antons á íþróttasviðinu, enda munu þau vera flestum í fersku minni. Þess skal þó getið, að framkoma hans á leikvangi var ávallt hin glæsilegasta og kom það einkum í ljós gagnvart keppinautum hans, sem öllum mun hafa þótt vænt um Tona. Í hinu daglega lífi var Anton sami drengskaparmaðurinn og á íþróttasviðinu. Þar fór saman reglusemi, ósérhlífni og áreiðanleiki, ásamt látlausri en prúðri framkomu. Í viðræðum var Anton hinn skemmtilegasti og bæði ráðhollur og góðgjarn. Að visu var hann skapmaður nokkur, og kunni vel að segja meiningu sína. En hann ætlaðist líka til sama hreinlyndis af öðrum. Þrátt fyrir yfirlætisleysið var framkoma Antons og fas á þann veg, að maður tók ósjálfrátt eftir honum, enda var svipurinn bjartur og vöxturinn karlmannlegur.”

Hinn 6. janúar 1944 birtist svofelld frétt á baksíðu Morgunblaðsins:

Virðuleg og fögur minningarathöfn

Í GÆR fór fram í Dómkirkjunni minningarguðsþjónusta um íþróttamennina tvo, Anton B. Björnsson og Hreiðar Þ. Jónsson, sem fórust með vjelskipinu Hilmi í nóvember s.l. Var athöfnin haldin að tilhlutun Íþróttasambands Íslands, Knattspyrnufjelags Reykjavíkur og Knattspyrnufjelagsins Víkingur. Kór kirkjunnar var tjaldaður svörtu, en fyrir kórdyrum stóðu íþróttamenn heiðursvörð undir fánum: þjóðfánanum og fánum íþróttasambandsins og K. R. og Víkings. Voru fánarnir sveipaðir sorgarblæjum.

Anton Björn hlaut sæg verðlaunapeninga og bikara fyrir þátttöku sína í íþróttum. Hans var þegar getið í blöðum 14 ára fyrir góðan árangur á drengjamótum. Áður hafði hann spilað fótbolta með yngstu flokkum KR. Sem unglingur var hann sigursæll á tugþrautarmótum en síðan lagði hann höfuðáherslu á fimleika. Vakti hann mikla athygli fyrir snilld sína á því sviði og vann hinn svonefnda Atlantis-skjöld til eignar.

15

Kirkjan var þjettskipuð fólki og hófst athöfnin á því að leikið var sorgargöngulag, en síðan sungnir sálmarnir: Fótmál dauðans fljótt er stigið og Ó, þá náð að eiga Jesúm. Síðan flutti sjera Bjarni Jónsson einkar fagra og hugnæma minningarræðu, þar sem hann mintist þess myrkurs, er nú grúfir yfir heiminum, og hve fljótt getur brugðið birtu í lífi vor mannanna. Rakti sr. Bjarni því næst hin miklu sannindi, að altaf snertir það marga, þótt einn sje á brott kvaddur, því allir eiga sinn litla umheim ástvina og ættingja. — Lauk vígslubiskup máli sínu með fagurri hvatningu til íþróttamanna um að hafa hinn æðsta ætíð í verki með sjer. — Síðan mintust allir viðstaddir hinna látnu með því að rísa úr sætum í þögn og lotningu.

Að lokinni ræðu vígslubiskups söng Ævar

Kvaran sálminn Hærra minn Guð til þín, en síðan var leikið sorgarlag á fiðlu. Því næst söng Pjetur Jónsson, óperusöngvari, Sjá þann hinn mikla flokk, sem fjöll, með undirleik fiðlu og orgels. Að lokum voru sungnir sálmarnir Á hendur fel þú honum og síðast Son Guðs ertu með sanni, og hlýddu allir standandi á hinn síðari. Var yfir allri athöfninni hinn fegursti blær.

Minningargjafir.

Er minningarguðsþjónustunni var lokið, fór stjórn K. R. og stjórn Í.S.Í. heim til foreldra Antons B. Björnssonar. K. R. afhenti foreldrum hins látna íþróttamanns til fullrar eignar fimleikaskjöld K. R., en þann skjöld hafði Anton unnið undanfarin ár. Fimleikamenn í K. R. gáfu til minningar um Anton annan skjöld, Antonskjöldinn, til kepni um í fimleikum innan fjelagsins. Frjálsíþróttamenn í K. R. gáfu stóran silfurbikar, sem veittur verður fyrir besta afrekið í tugþraut á ári hverju innan Í. S. Í. Er það farandgripur.

Stjórn Í. S.Í.. afhenti foreldrunum skjöld Í. S. Í, íþróttafulltrúinn flutti kveðju frá íþróttakennaraskólanum að Laugarvatni og forseti Í. S. Í. kveðju frá Ungmennafjelagi Keflavíkur.

Stjórn Víkings og forseti Í. S. Í. fór til móður Hreiðars Jónssonar. Víkingur afhenti henni minningarskjöld úr silfri og forseti Í.S Í. Minningarskjöld Í. S. Í.

Hinn 14. september birtust síðan þessi frétt í Þjóðviljanum:

MINNINGARSJÓÐUR. Lögreglumenn í Reykjavík hafa með 2000 kr. framlagi stofnað minningarsjóð um Anton B. Björnsson íþróttakennara. Sjóðurinn heitir Utanfarasjóður Antons B. Björnssonar og skal verða efnilegum íþróttamönnum til styrktar, sem stunda nám erlendis. Síðar mun verða staðfest reglugerð fyrir sjóðinn.

ANTONSBIKARINN.

Í.S.Í. hefur staðfest reglugerð um farandbikar, sem keppa skal um í tugþraut. Skal sá maður, sem nær bestum árangri á ári hverju í þeirri grein, hljóta hann sem heiðursverðlaun. Bikarinn er gefinn af frjálsíþróttamönnum K. R. til minningar um Anton B. Björnsson íþróttakennara.

Í dánarfregnum um þá sem fórust með “Hilmi” var mín hvergi getið, né heldur í auglýsingu um minningarathöfnina. Ekki kom nafn mömmu sem unnustu Antons heldur við sögu. Við mæðginin vorum “ekki inni í myndinni.” Engu að síður var viðmót föðurfólksins míns hið besta frá því að ég man fyrst eftir mér. Ég fór oft á Sólavallagötuna í heimsókn með mömmu og Ásu og man óljóst eftir afa mínum Birni, þar sem hann sat í ruggustól inni í stofu og lét tímann líða, alvarlega veikur eftir heilablóðfall. Hann dó í júlí 1946.

Síðar komst ég að raun um þau foreldrar og systkini Antons lögðu öll sitt af mörkum peningalega til að tryggja framfærslu mína. Einnig hafði Anton verið líftryggður og voru það peningar sem komu í minn hlut. Varð Hjörtur Hjartarson, kaupmaður, eiginmaður Ástu föðursystur minnar, fjárhaldsmaður minn. Peningarnir voru settir inn á bók og brunnu

16

upp í verðbólgunni. Póstburðarmaðurinn sem kom til okkar í braggann á reiðhjóli afhenti einu sinni á ári bréf sem var merkt mér persónulega, 4-7 ára gömlum. Í því var álagningarseðill frá Skattinum. Hann afhenti mér það með bros á vör og kallaði mig “litla skattborgarann,” “Markús Örn Antonsson, Skála 6 v. Flugvallarveg”, var nefnilega í skattskránni og rukkaður um 50 krónur í opinber gjöld. Um jól fékk ég gjafir frá föðurfólkinu og ég fór með því á jólatrésskemmtanir í Oddfellowhúsinu. Mér var líka boðið í barnaafmæli hjá frændsystkinum og í sextugsafmæli ömmu Önnu var ég með á hópmynd af henni og barnabörnunum. Þá var líka tekin mynd af nokkrum piltunum sem báru nafnið “Björn” í höfuðið á afa. Ég vildi

líka troða mér með á þá mynd en var meinaður aðgangur. Það kostaði uppistand, ekki óvanalegt á æskuárunum og væri nú nefnt “æðiskast.”

Krökkum í fjölskyldunni var boðið í afmælið mitt sem haldið var suður á Flugvallarvegi. Frænkur mínar sögðu síðar að það hefði verið undarleg tilfinning, leyndardómshlaðin og hálf ævintrýraleg að koma inn í bragga, eins umtalaðir og þeir nú voru.

“Bölvuð svínabestin”, hreytti Jóhannes Teitsson út úr sér um leið og hann hagræddi gólfmottu á ganginum, sem lá frá útidyrum inn að tvennum íbúðardyrum í húsinu á Laugavegi 85. Honum fannst greinilega ekki gengið nógu vel um, og einhver hafði skilið eftir sig óhreinindi á ganginum eða gólfmottunni. Þetta orð “svínabest” festist á svipstundu í orðaforða mínum og greip ég oft til þess í samtölum við fólk á næstu vikum og mánuðum af tilefnislitlu í ýmsu samhengi og með nokkrum tilbrigðum, ýmist “helvítis svínabest” eða “andskotans svínabest ertu”, ef ég vildi ná fram sterkum, hneykslunarkenndum viðbrögðum. Ég var orðinn þriggja ára gamall og fluttur með móður minni og Magnúsi Jóhannessyni stjúpa mínum inn á heimili foreldra hans við Laugaveginn, rétt innan Barónsstígs. Þau giftu sig um vorið 1945. Jóhannes var verkstjóri hjá Flugmálastjórn og vann m.a. að gerð flugvallarins í Vestmannaeyjum á þessum tíma en hafði unnið

Jóhann Ágústsson, frændi minn um fermingu á Frakkastígnum, átti glæsilegt tvíhjól, sem ég fékk að setjast upp á. Áhugi minn á flugi fór stöðugt vaxandi og var ég með “einkennishúfu flugstjórans” þegar þessi mynd var tekin af mér og Ásu frænku. Húfan er líka með á forsíðumynd þessa heftis.

17
Magnús Jóhannesson, stjúpi minn, smókingklæddur við hátíðlegt tækifæri. Hann var trésmiður á eigin verkstæði.

Ný og glæsileg skip Eimskipafélagsins til millilandasiglinga voru smíðuð fljótlega eftir heimsstyröldina í Danmörku. Hinir svonefndu “þríburar”, þ.e. “Dettifoss”, “Goðafoss” og “Lagarfoss” voru fyrstir. Flaggskipið “Gullfoss” kom 1950.

við Reykjavíkurflugvöll í Bretavinnunni. Hann skrifaði greinar í blöð og flutti erindi í útvarpið um ýmis hugðarefni sín.

Guðrún Magnúsdóttir kona hans stundaði húsmóðurstörf og félagsmálavafstur í Sjálfstæðiskvennafélaginu Hvöt og Barðstrendingafélaginu en hún var fædd og uppalin í Gufudalssveitinni. Ung hafði Guðrún lokið kennaraprófi við Kennaraskólann og stundaði kennslu vestur í Bolungarvík, þar sem þau Jóhannes bjuggu lengi og ólu upp fjóra syni sína og stjúpdóttur. Jóhannes var líka kennari og hafði auk þess starfað sem lögreglustjóri “í Víkinni” eins og Bolungarvík var alltaf nefnd á heimilinu. Það löreglustjórastarf var eiginlega ígildi sveitarstjóra. Guðrún var skáldmælt og liggur eftir hana mikið af ljóðum. Hún gaf út tvö bindi af ljóðabókum sem nefndar voru “Ómar”. Í æviminningum Einars Guðfinnssonar, útgerðarmanns í Bolungarvík, minnist hann Guðrúnar sem “skáldkonunnar á Flötunum”.

Þarna á Laugaveginum var þröngbýli nokkurt. Karl hálfbróðir minn var kominn í heiminn þannig að nú vorum við fjögur búandi í einu herbergi og höfðum aðgang að eldhúsi og snyrtingu í íbúðinni hjá þeim Guðrúnu og Jóhannesi. Þannig hafði það víst oft búið fyrstu

Það var ævintýri líkast að koma um borð í “Goðafoss” sem var vöruflutningaskip með aðstöðu fyrir 12 farþega.

Reykjavíkurárin sín, fólkið sem fluttist utan af landi á stríðsárunum, þar á meðal þau hjónin og fjölskyldan. Bjuggu inni á gömlum sveitungum vestur í bæ, hjá vinum eða skyldmennum meðan þau voru að finna sér framtíðarsamastað. Á efri hæðinni á Laugaveginum bjó Björn bróðir Magnúsar ásamt eiginkonu sinni Oddnýju, sem ættuð var úr Aðalvík. Bjössi og Nýja áttu þrjár dætur á þessum árum og var Guðbjörg, sú elsta, jafnaldra mín og vinkona. Björn var mikið fjarri heimilinu. Hann var skipverji á einum af “þríburunum” svokölluðu, Goðafossi, hinu glæsilega, nýja frakt- og farþegaskipi Eimskipa, sem kom til landsins 1948 ásamt Dettifossi og Lagarfossi, sömu gerðar. Baldvin, sá yngsti af bræðrunum á Laugaveginum var

18

þar ennig um borð, Björn í vélinni en Baldvin í messanum. Auk vörufarmsins tóku skipin 12 farþega á ferðum vestur og austur um haf. Samhliða vélamannsstarfinu á sjó stundaði Bjössi alhliða verslun með smygl í landi, seldi sígarettur, áfengi, nælonsokka, tyggjó og alls konar skrautmuni, m.a. postulínsstyttur sem hentuðu vel til tækifærisgjafa. Hafði hann heilan vörulager í kjallaranum á Laugaveginum. Allt gekk þetta fljótlega út enda vöruskortur og verðlag í hæstum hæðum. Viðskipti sín stundaði Bjössi bæði hér í Reykjavík sem og í höfnum erlendis, einkum Kaupmannahöfn.

Áslaug Sigurðardóttir, ekkja með þrjár dætur, hafði áður búið í húsinu. Ein þeirra kom fram þegar haldin var þrettándabrenna á Íþróttavellinum og þótti mér ekki ónýtt að geta gortað af því að á efri hæðinni heima hjá mér byggi álfadrottning.

Mér fannst skemmtilegt að umgangast Jóhannes Teitsson, sem var oftast glaðvær og hláturmildur. Þess á milli gat hann rokið upp og látið fólk hafa það óþvegið ef honum mislíkaði. Gjarnan gekk hann um gólf heima við með hendur fyrir aftan bak um leið og hann hlustaði á útvarpið. Fór ég að herma þetta eftir honum. Ef hann varð þess var átti hann til að taka undir sig stökk á stofugólfinu eins og sprellikarl og hlæja dillandi hlátri. Þetta atriði fannst mér alltaf jafnfyndið og eftirbreytnivert. Hann sýslaði við margt. Á skrifborðinu voru gjarnan útbreiddar húsateikningar, blýantar, reglustikur og sirklar, sem hann notaði við hönnunarvinnu. Hann var uppfinningamaður að eðlisfari og hefði átt að leggja fyrir sig verkfræði. Húsasmiður var hann góður, með meistararéttindi í greininni og byggði á góðri reynslu. Jóhannes var áskrifandi að ýmsum áhugaverðum tímaritum og Lögbirtingablaðinu. Settist ég niður með Lögbirting og þótti fróðleg lesning þegar ég gat stafað mig í gegnum hann. Orðið “nauðungaruppboð” vafðist lengi fyrir mér og ég spurði fullorðna fólkið í sakleysi mínu hvað “nauðgunaruppboð” væri. Ekki er mér þó grunlaust um að ég hafi þá þegar heyrt fyrri

19
Löngum stundum var varið til leikja á baklóðinni á Laugavegi 85. Þar var rabarbarinn og illgresið eins og frumskógur fyrir kátan könnuð. Hálfsystkini mín Kalli og Gunna tóku sig vel út í nýjum sumarfatnaði frá útlöndum um 1950. Frænka okkar Diddý flugþerna færði okkur oft nýjan fatnað. Karl lést árið 2021 og Guðrún 2010. Yngri voru Magnús Hrafn og Erla Kristín. Magnús lést 1989. Erla Kristín er gift og býr í Reykjavík.

hluta þess orðs í einhverju sérstöku sambandi. Á komandi árum átti ég oft erindi á Laugaveginn

í heimsókn til þeirra Jóhannesar og Guðrúnar þó ekki væri nema til að fara í klippingu hjá Skúla Eggertssyni, rakara, í næsta húsi á Laugavegi 83. Mér var ekki vel við vélklippur og skæraglamur hjá hárskeranum og var oft tregur til að setjast á upphækkunarbrettið sem sett var á armana á gamla rakarastólnum. Meðan beðið var afgreiðslu fylgdist ég vel með hárþvottum sem algengt var að menn fengju á rakarastofunni. Opinn gaseldur hitaði upp vatnið í glerdunk á veggnum og þar undir var postulínsskál. Hárið var sápað og skolað

úr því með slöngu, sem hékk niður úr dunknum. Fyrir marga var þetta nauðsyn vegna bágrar þvottaaðstöðu sem þeir bjuggu við. Annar hver maður var þarna til að fá rakstur. Þeir lágu aftur með andlitið á kafi í froðunni af raksápunni á meðan rakarinn brýndi sín hvasseggjuðu tól á leðurólinni, sem hékk við stólinn. Síðan var rakhnífnum beitt af mikilli kúnst og froðan og skeggbroddar fjarlægðir.

Guðrún Magnúsdóttir tók mér sem barnabarni sínu enda afskaplega ljúf og yndæl kona að eðlilsfari þó að hún gæti skipt skapi svo um munaði og léti mig ekki komast upp með nein strákapör. Bak við húsið á Laugaveginum var sérstök veröld okkar krakkanna, sem bjuggum í húsunum við Laugaveg og Barónsstíg. Við lékum okkur mikið á þessu verndaða leiksvæði. Bláleit leifturljós frá logsuðutækjum bárust reglulega upp um þakgluggana á járnsmiðju Magnúsar Jónssonar, bakhúsi við Barónsstíg, sem síðar var veitingastaðurinn Argentína, og verkuðu á okkur sem furðuleg fyrirbæri þegar skyggja tók. Við kíktum á gluggana í kjallaranum á Röðli, þar sem konur stóðu við bökunarvél og gerðu brauðform fyrir rjómaísinn, sem seldur var þar uppi í veitingastofunni á Laugavegi 87. Stundum var litið þangað inn og keyptur ekta rjómaís, ein kúla í kramarhúsi og ísfrauð úr appelsíni, sem afgreiðsludaman setti í smádæld, sem hún myndaði með skeiðinni

ofan á ístoppinn. Röðull var skemmtistaður með samkomusal á efri hæð. Þar voru haldin meirháttar skröll með pelafylleríi um helgar. Virka daga var þar ballettskóli Sigríðar Ármann.

Bak við hús var hænsnakofinn hennar Guðrúnar. Þangað átti ég iðulega erindi að vitja eggja og gefa hænsnunum. Á veturna var farið með olíulukt út í kofann. Varpaði hún dularfullri ljóstýru yfir hænsnahópinn sem kúrði á tréstokkum upp um alla veggi og hafði hægt um sig í myrkrinu.

Á sumrin var ræktað grænmeti í beðum í húsgarðinum og rabarbari óx þar einnig út um allar trissur með njólanum. Jóhannes væri nú á dögum kallaður heilsufrík, því að hann lifði eftir kenningum Jónasar Kristjánssonar, læknis, og formanns Náttúrulækningafélagsins. Mikið var borðað af grænmeti en helsti ókostur þessarar hollustustefnu Jóhannesar var lýsisbræðslan sem Guðrún stundaði í eldhúsinu. Óþefurinn sem af þeirri iðju hlaust smaug um allar vistarverur og sat í skápum og fastur í klæðnaði. Þorsklifur var látin malla og bráðna í stórum potti á eldavélinni og ætlaði lyktin hvern meðalmann að drepa meðan á þessum verknaði stóð.

Daunninn niðri í geymslunum í kjallaranum gat líka ofboðið þefskyni ókunnugra. Þar voru kettirnir hennar Guðrúnar og höfðu næstum ótakmarkað athafnasvæði. Tíðum voru komnir nýir kettlingar til að skoða og klappa en sennilega hefur þessi kattavinátta Guðrúnar nokkuð gengið út í öfgar, því að hún hafði gjarnan op á kjallaraglugganum til að vegalausir útigangskettir í Austurbænum gætu skotist inn í hlýjuna á Laugavegi 85 og fengið sér matarbita og mjólk þegar þannig viðraði eftir lóðarí næturinnar. Seinna eignaðist ég einn af kettlingum Guðrúnar, sem lést í hárri elli eða 15 ára gamall.

20

Úr myndaalbúminu

Vetrarleikur á Frakkastígnum með systrunum Kristínu og Erlu. Báðar urðu flugfreyjur hjá Loftleiðum.

Með mömmu í heimsókn til vina í sumarbústað.

Við hina þekktu súlu hjá Lofti ljósmyndara.

21
Berfættur laganna vörður í villta vestrinu.

Camp Daniel Boone

Bragginn okkar var nr. 6 við Flugvallarveg, á fínna máli: “Skáli 6”. Þarna var þyrping 8 herskála og þvottahúsbraggi nokkru fyrir neðan Miklatorg, á leiðinni út á flugvöll. Skammt frá var ræsi með brú á Flugvallarveginum en sunnar uppi á hæðinni stóð varðskýli lögreglunnar, þar sem fylgst var með umferð inn á flugvallarsvæðið austanvert.

Kampurinn okkar var kenndur við Daniel Boone, amerískan landkönnuð og veiðimann, sem lenti í ýmsum ævintýrum í óbyggðum eins og samtímamaður hans David Crockett. Í hverfinu hafði verið bækistöð flugliða Breta og Bandaríkjamanna á styrjaldarárunum.

Braggarnir voru í sæmilegasta ástandi þegar nýir eigendur keyptu þá og Magnús gerði okkar bragga enn betur úr garði með allstóru eldhúsi í viðbyggingu að vestanverðu. Hernámsliðið hafði skilið eftir sig 4030 bragga í Reykjavík, sem voru bráðabirgðahúsnæði, ætlað til fjögurra ára eftir stríðið eða svo. Þeir urðu plástur á gífurlegt húsnæðisvandamál í höfuðborginni að stríðinu loknu. Við fluttum inn árið 1946. Það ár bjuggu um 1300 Reykvíkingar í bröggum, þar af 511 börn. Fimm árum síðar var fjöldi braggabúa orðinn 2200. Híbýlin hjá okkur voru þannig að á norðurgafli braggans var inngangurinn og lítil forstofa. Þar fyrir utan stóð olíutunna á trégrind og við hana tengd leiðsla sem lá inn að miklum olíuofni miðsvæðis á gólfi í aðalrýminu, sem var stofan okkar. Ein mynd hékk á vegg, olíumálverk eftir Magnús, gerð eftir ljósmynd frá Mývatni. Magnús hafði hæfileika sem frístundamálari og málaði margar myndir og hélt sýningar síðar á ævinni. Í suðurenda braggans voru tvö lítil svefnherbergi. Bragginn var bárujárnsvarinn

og málaður dökkgrænn að utan, hlýr og þéttur þannig að ekki myndaðist raki og saggi en hann var þiljaður með texplötum, sem voru viðkvæmar fyrir vatni. Stundum mátti heyra rottugang milli þilja. Þá var slegið kústskafti í loftið og lét rottan sér oftast segjast og bærði ekki á sér lengi eftir það.

Fyrst eftir að við fluttum var ekkert salerni í nýja húsnæðinu. Í viðbyggingunni var auk eldhússins autt rými til að byrja með, óupphitað og mjög kalt fyrsta veturinn. Þar var blikkfatan, sem notuð var sem bráðabirgðaklósett. Allt skólp frá bröggunum fór út í skurð, sem var hálffullur af vatni í mýrinni skammt frá. Hann var í daglegu tali nefndur “Skítaskurður”. Opin rotþró fyrir hverfið. Síðar fengum við

22
Daniel Boone, landkönnuður, f. 1734 - d. 1820.

vatnssalerni og held ég að svo hafi verið um önnur heimili þarna en kannski notuðust einhverjir við útikamra líka. Skömmu ofar við Flugvallarveginn stóðu Pólarnir, niðurníddir með sambyggðum útikömrum sem litu út eins og lítil raðhúsalengja. Það hefur verið köld seta þar á vetrarkvöldum. Pólarnir voru taldir lakasta félagslega úrræðið í húsnæðismálum bæjarins á þeim árum ásamt Höfðaborginni inni við Borgartún, Bjarnaborg við Vitastíg og Selbúðirnar við Seljaveg. Pólarnir höfðu verið reistir sem bráðabirgðahúsnæði árið 1917 og var illa haldið við. Þar var framhliðin þó máluð en bakhliðinni sleppt nokkru áður en Friðrik

Danakonungur kom í opinbera heimsókn 1956 og keyrði framhjá á leiðinni frá flugvellinum.

Pólarnir voru ekki rifnir fyrr en 1965. Þetta var eiginlega bakhliðin á Reykjavíkurlífinu, sem margir vildu ekkert vita af. Flestir

íbúar Pólanna þurftu að leita aðstoðar hjá fátækrafulltrúa bæjarins. Eða Vetrarhjálpinni, sem rekin var með samskotum frá almenningi. Hjálpræðisherinn lagði einnig sitt af mörkum. Á vegum bæjarins var meira að segja starfrækt saumastofa yfir bæjarskrifstofunum í Hótel Heklu við Lækjartorg, þar sem eingöngu voru gerðar flíkur handa fátæku fólki. Það þótti mér dapurleg tilhugsun. Ég þekkti jafnaldra mína í Pólunum og heimsótti þá stundum. Flestir ósköp venjuleg Reykjavíkurbörn í mínum augum en sumir skáru sig úr sem hrekkjusvín og þótti ráðalegast að forðast þá. Óla var hún kölluð gamla konan sem gekk þarna um portið liðlangan daginn, að því er virtist, og öskraði á krakkaskarann til að koma skikki á mannskapinn. Eftirminnilegastar voru ungar konur sem þarna bjuggu og gengu með slifsi. Það kom svipur á hana ömmu mína, þegar ég var að segja henni frá þessu snotra hálstaui kvennanna í Pólunum og lýsti því að þær væru “með svona dömubindi um hálsinn”. Það var lógískt. Kvenfólk gekk tæpast með herrabindi.

Eldsvoðar voru alltíðir í timburhúsum og bröggum bæjarins og minntist fullorðna fólkið oft á eldhættuna í Pólunum, sem voru tvílyft blokk úr timbri með 10 íbúðum. Þar

“Braggi er bogalaga bygging klædd að utan með bárujárni. Byggingin er eins og hálfur sívalningur. Braggar voru notaðir sem skemmur, gripahús og herskálar.

Í seinni heimsstyrjöldinni voru herskálar oft braggar. Bretar reistu mörg braggahverfi úr forsniðnum braggaeiningum sem þeir komu með til Íslands þegar þeir hernámu landið. Alls risu um 6000 breskir braggar en þegar Bandaríkin tóku við hernáminu þá reistu þeir til viðbótar 1500 bragga.

Bresku braggarnir voru Nissen-braggar en bandarísku braggarnir voru svonefndir Quonset-braggar.

Braggahverfin sem hermenn skildu eftir voru svo um langt skeið notuð sem íbúðarhúsnæði.”

23
-Wikipedia Skemmur, gripahús, herskálar

Klambratún

Landspítali

inni voru kolaeldavélar og kolaofnar, sem urðu að loga yfir nóttina á frostnóttum. Ég held að braggabúunum neðar við Flugvallarveginn hafi svo sem ekki verið neitt rórra þegar þeir ornuðu sér við sína elda.

Ekki var það einfalt mál fyrir bíllaust fólk eins og bæjarbúar voru almennt að komast í heimsókn til okkar eða fyrir okkur að fara niður í bæinn. Ása frænka mín komst með annálaðri útstjórnarsemi sinni að einhverju sérsamkomulagi við flugmálayfirvöld landsins um að fá að sigla stundum með í litlum farþegavagni, sem flutti flugumferðarstjóra við vaktaskipti í flugturninum. Við hin þurftum að fara upp í Norðurmýri til að taka strætó, Njálgötu-Gunnarsbraut-Sólvelli í Auðarstrætinu. Þar skammt frá var næsti opni leikvöllurinn, sem við krakkarnir sóttum. Smærri innkaup voru gerð í versluninni Hlíð, sem var örlítil kompa í smáhýsi við Laufásveginn, rétt fyrir ofan Pólana. Þar verslaði Kjartan Stefánsson kaupmaður og seldi alls kyns nauðsynjar svo sem hveiti, sykur, kaffi, tóbaksvörur eða steinolíu sem dælt var með handdælu í blikkbrúsa er fólk hafði

með sér í búðina. Margir viðskiptavinanna úr Pólunum og bröggunum höfðu steinolíuvélar til eldunar heima. Og auðvitað seldi Kjartan okkur krökkunum súkkulaðivindla og fimm aura kúlur ef við máttum fá okkur eitthvað “fyrir afganginn”.

Væri farið að kaupa matvörur lá leiðin upp á horn Leifsgötu og Þorfinnsgötu. Þar var kjötbúð J.C. Klein á Leifsgötu 32 og nýlenduvöruverslun Páls Hallbjörns. Þangað var ég iðulega sendur til að versla eftir innkaupaseðli og hafði með mér tilskilda skömmtunarseðla, því mikið af matvöru var háð framvísun skömmtunarseðla í öllum regnbogans litum, eitthvert visst magn af varningi út á hvert miðasnifsi, m.a. mjólk, rjóma, smjöri, smjörlíki og kaffi. Einu sinni freistaði mín óskaplega ónotaður blýantur, sem stóð framarlega á afgreiðsluborðinu. Ég gat ekki staðist freistinguna og laumaði honum í innkaupapokann þannig að enginn sá til. Það var heljarinnar byrði fyrir fimm ára gutta að rogast með varninginn niður á Flugvallarveg.

Þegar ég var kominn ferðlúinn heim rakst mamma á blýantinn í innkaupapokanum og spurði hverju þetta sætti. Ég varð að játa brot

24
Hitaveitugeymar
Camp Daniel Boone Loftmynd af Hlíðunum og Norðurmýri, tekin í ágúst 1946. Innan hringsins er hverfið okkar, rétt við flugbrautarendann.

mitt á 7. boðorðinu: “Þú skalt ekki stela”. Þá var mér umsvifalaust skipað að fara aftur upp á Leifsgötu og skila blýantinum í búðina, hvað ég og gerði mjög skömmustulegur. En ég dró af þessu ákveðinn lærdóm.

Enginn sími var í bröggunum. Ef við þurftum nauðsynlega að ná í lækni eða koma frá okkur boðum áttum við það undir lipurð lögregluþjónsins, sem stóð vaktina í varðskýlinu uppi á hæðinni. Þar gengu sömu lögregluþjónar vaktir yfir lengri tímabil, einn maður í senn, og voru þeir greiðviknir og hjálplegir þannig að íbúar í kampinum fengu að nota símann ókeypis. Þessir laganna verðir voru þó misþungir á brún. Við kynntumst þeim smám saman en fyrir þeim var borin virðing og þar að auki sýndum við sumum óttablandna lotningu. Þetta var kallað flugvallarhliðið því að beggja vegna vegarins höfðu verið reistir stöplar við varðskýlið. Stór og mikil járnslá, hvítmáluð með rauðum röndum stóð upp í loftið á þeim sem stóð nær skýlinu og mátti skella henni niður á hinn ef mikið lá við og stöðva þurfti umferð inn á flugvallarsvæðið. Ekki minnist ég þess að hafa séð það nokkurn tímann gert, utan einu sinni. Það var þegar þýsku vinnukonurnar komu til landsins og voru fluttar til dvalar í áningarstað í flugvallarhótelinu við Nauthólsvík. Þá var járnsláin í hliðinu látin falla og umferð bönnuð, líklega til að vernda stúlkurnar fyrir hugsanlegu áreiti af hálfu ungra íslenskra karlmanna.

Þetta ódýra þýska vinnuafl, alls 130 konur og 50 karlmenn, kom með farþegaskipinu Esju til landsins frá Þýskalandi í júní 1949, fyrsti hópurinn af 300 manns alls sem hingað var skipulega flutt eftir hörmungar styrjaldarinnar, hungur og nauðganir. Fólkið hafði skamma viðdvöl hér syðra áður en það hóf störf á íslenskum sveitabæjum við afar misjafnt atlæti.

Sem betur fer þurfti ekki að leita í lögregluvarðskýlið nema til að fá að nota símann. Ég var alltaf með nokkra tíeyringa og 25 eyringa í vettlingnum til að bjóða greiðslu, þegar ég þurfti að fá að hringja til ættingja eða á leigubíl. En greiðslu var

Braggaþyrping fyrir framan flugturninn á Reykjavíkurflugvelli. Þar varð síðar athafnasvæði Loftleiða. Rétt fyrir ofan miðju myndarinnar lengst til hægri eru “okkar braggar” í Camp Daniel Boone.

Pólarnir voru byggðir sem bráðabirgðahúsnæði á árunum 19161918 fyrir sunnan Laufásveg og langt utan við bæinn, á leiðinni upp í Öskjuhlíð. Húsin voru reist af fátækranefnd Reykjavíkur til að koma til móts við húsnæðisþörf tekjulágra barnafjölskyldna.

25
Misstór braggahverfi voru víða um bæinn. Camp Knox var í næsta nágrenni við nýleg íbúðarhús á Melunum og stóð á milli Hofsvallagötu og Kaplaskjólsvegar.

aldrei krafist. Eitt sinn þurfti ég þó að leita aðstoðar lögreglunnar. Þá var Gunnar Huseby, Evrópumeistari, Norðurlandameistari og margfaldur Íslandsmeistari í kúluvarpi kominn kófdrukkinn eftir að skyggja tók að vetrarlagi heim í braggann til okkar og lét mikinn, þá tæplega þrítugur. Mamma var ein heima með okkur krakkana. Hún og Gunnar þekktust frá því að þau voru yngri og Gunnar, eða Bassi eins og hann var kallaður, að hefja sinn feril sem íþróttamaður. Anton faðir minn mun hafa “uppgötvað” Bassa og farið að þjálfa hann í kúluvarpi á baklóð í Vesturbænum. Voru þeir báðir félagar í KR.

Þegar Gunnar datt í það urðu úr því langir túrar og var hann einhvers staðar á miðri leið, eftir þriggja eða fjögurra daga fyllerí, þegar hann kom hávær og nokkuð stóryrtur inn til okkar. Huseby var með fyrirferðarmestu mönnum á almannafæri þegar hann var drukkinn. Óð þá um götur, þrekvaxinn og sterklegur, hárprúður og stórskorinn með miklar yfirlýsingar um afrek sín og líkamshreysti. Þannig fór hann gjarnan niður bróðurpartinn af Laugaveginum

þegar sá var gállinn á honum. Ég vissi að hæglát og geðþekk stúlka, sem afgreiddi snúða og rjómakökur í í Sandholts-bakaríi, var unnusta Gunnars og var samúð mín öll með henni þegar hann nálgaðist bakaríið í þessum ham. Hún hlyti að skammast sín fyrir kærastann þó að það væri sjálfur Huseby. Í heimsókninni á

Flugvallarveginn hafði hann ekki í hótunum við mömmu eða okkur krakkana en ég sá þann kost vænstan að skjótast út þegar lítið bar á og leita ásjár vaktmannsins í lögregluskýlinu. Það var jú hlutverk löggunnar að taka fulla kalla. Þegar lögreglan kom á vettvang var Gunnar á bak og burt. Hann bjó svo sjálfur í einum bragganum við Flugvallarveg ásamt móður sinni og sambýliskonu allmörgum árum síðar en þá vorum við flutt á brott. Gunnar drakk frá sér mögleikana á að taka þátt í tvennum Ólympíuleikum fyrir Íslands hönd. Hann lést árið 1995 og hafði þá ekki bragðað áfengi síðustu 25 ár ævinnar.

Umhverfi kampsins var ótrúlegur ævintýraheimur og þar kviknaði í barnssálinni brennandi áhugi á flugvélum og öllu sem flugi

Hreyfildrunurnar frá “Heklu” vöktu mig oft á morgnana. Ég settist við eldhúsgluggann, gagntekinn af hrifningu þegar sólin kastaði geislum sínum á þennan silfurlita risafugl um leið og hann lyfti sér upp í hæstu hæðir.

26

tilheyrði. Flugvélar, sem voru að búa sig til flugtaks til suðvesturs á flugbrautinni neðan Miklatorgs voru nánast uppi í eldhúsglugganum heima. Douglasinn og Katalínan, Anson og Grumman voru stöðugt í ferðum á vegum Flugfélags Íslands og Loftleiða á innanlandsleiðum og einnig kennsluflugvélar, Piper Cup og gamlar tvíþekjur, á hringsóli í námunda við bæinn. Það mátti greina flugmennina í stjórnklefunum, sem voru “litlu karlarnir” að sjá úr þessari fjarlægð. Fánastöng með íslenskum fána eins og maður fór með í skrúðgöngu var jafnan höfð uppi yfir stjórnklefanum á farþegavélunum meðan þær óku um á jörðu niðri. Fyrir flugtak opnaði flugstjórinn gluggann vinstra megin, teygði sig eftir flagginu og færði það inn í stjórnklefann. Hverju atviki var nákvæmlega fylgt með vökulum barnsaugum. Hávaðinn í flugvélahreyflunum og hraðinn í flugtaki og lendingu heillaði. Ég þekkti flugvélategundirnar á hljóðinu. Ekki var það síðra að sjá fjögurra hreyfla Skymastervélarnar renna sér á “okkar braut” í hvössum vindi. Þær mátti líka greina á öðrum brautum flugvallarins og maður

skynjaði að þarna um borð væri fólk að fara á vit ævintýranna í fjarlægum löndum. Silfurgljándi skrokkurinn á “Heklunni” í morgunsólinni með hátt og tignarlegt stélið í íslensku fánalitunum er sýn, sem mér líður aldrei úr minni. Eins konar opinberun. Þessi farkostur bar merki Íslands víða um lönd svo snemma eftir styrjöldina og þar með vorum við komin jafnlangt ef ekki lengra í samöngumálum en sumar nágrannaþjóðirnar. Þeir sem ekki höfðu efni á utanlandsferðum eða út á landsbyggðina gátu kynnst fluglistinni í stuttu hringflugi yfir Reykjavíkursvæðið. Bertha og Magnús fóru eina slíka í Ansonvél Loftleiða og þótti okkur krökkunum gaman að heyra mömmu segja frá öllum dýfunum sem flugvélin hafði tekið. Við heyrðum líka frásagnir af því að farið væri með börn sem þjáðust af alvarlegum kíghósta í hringflug. Þá kæmust þau í þynnra loft sem hefði góð áhrif. Við lögðumst í rúmið með kíghósta, rauða hunda, hlaupabólu, mislinga og hettusótt, sem allt voru alvanalegir

þurfti að snúa skrúfunni með handafli til að koma þessari gömlu tvíþekju í gang. Flugskólarnir buðu upp á hringflug yfir Reykjavík.

Þessi mynd úr hringflugi yfir bæinn sumarið 1946 sýnir glögglega gróðurlítinn Hljómskálagarð og engin uppfylling er enn komin við grandann út í Örfirisey. Grandinn var vinsæl gönguleið út í eyjuna þar sem bæjarbúar nutu útivistar í góða veðrinu.

27
Það

barnasjúkdómar og ekki var bólusett gegn. Farið var með okkur í barnaeftirlit og berklaprufur í Líkn, næsta hús vestan við Alþingishúsið, sem var eins konar heilsuverndarstöð bæjarins. Ég fékk fóbíu fyrir hvítum sloppum, sem gat farið út yfir öll mörk. Það kom fram þegar ég var tveggja eða þriggja ára og drifinn til Lofts ljósmyndara. Loftur sjálfur ætlaði að taka myndina. Hann var í hvítum vinnusloppi þegar hann kom þjótandi inn í myndatökuherbergið. Ég varð felmtri sleginn, hágrét af ótta við hvíta sloppinn og það leið langur tími áður en ekkasogin hjöðnuðu og ég gat stillt mér upp við hina frægu súlu í stúdíói Lofts.

Ég var úti á svæði Loftleiða á flugvellinum austanverðum hinn 14. júní 1947 þegar “Hekla”, fyrsta millilandaflugvél Íslendinga, kom til landsins, nefnd eftir hinni eldspúandi nöfnu sinni, sem farið hafði að gjósa nokkrum mánuðum áður. Það var Gústi frændi á Frakkastígnum sem tók mig með á Morrisnum sínum þegar hann fór út á völl að skoða gripinn, þar sem mikill mannfjöldi var saman kominn. Til að fljúga Heklu og þjálfa verðandi flugstjóra Loftleiða kom með vélinni Byron Moore, reyndur flugstjóri hjá Eastern Airlines í Bandaríkjunum. Mörgum sögum fór af færni hans og dirfsku. Sannur flugkappi. Eina helgina vorum við vakin upp með ógurlegum flugvéladrunum að næturlagi. Það var fullyrt að þarna hefði Byron Moore verið á ferð á Heklu til að fá útrás fyrir flughæfileika sína.

Við Flugvallarveginn fylgdist maður betur með starfsemi Loftleiða en Flugfélags Íslands. Flugvélar Loftleiða og afgreiðsluskúr, sem byggður var úr trékassa utan af innfluttri flugvél, var okkar megin vallarins en Flugfélag Íslands hafði þá aðstöðu sunnan austur-vestur flugbrautarinnar, skammt frá Shellstöðinni við Skerjafjörð. Bæði flugfélögin buðu farþegum sínum bílfar frá afgreiðslustöðum sínum í Lækjargötu út á flugvöll. Þetta voru gamlar herrútur. Flugfélagsrútan kom sjaldan þessa leið enda flugafgreiðslan við Skerjafjörð. Hins vegar fór Loftleiðarútan framhjá, oft nokkrar

ferðir á dag, með farþega í innanlands- og millilandaflugi. Við krakkarnir í braggahverfinu þustum alltaf út að götu þegar sást til rútunnar og veifuðum ákaft þegar hún ók framhjá. Guðjón hét bílstjórinn og hann vinkaði alltaf glaður í bragði og margir farþegarnir líka. Hópur ferfætlinga fór líka um Flugvallarveginn nokkuð reglulega. Það voru kýrnar úr fjósinu í Eskihlíð, sem Imba kúasmali, sérstæð gömul kona í verklegum búningi, rak á beit suður á flugvallarsvæðinu. Fjósið í Eskihlíð varð síðar fyrsta verslunarhúsnæðið, sem Pálmi í Hagkaupum opnaði.

Kristín Ágústsdóttir, frænka okkar á Frakkastígnum, gerðist flugfreyja hjá Loftleiðum 1947 en hafði áður starfað í vefnaðarvöruversluninni Snót á Vesturgötu 17 sem seldi m.a. eftirmiðdagskjóla og “blúndur og milliverk”. Kristín var jafnan kölluð Diddý, mjög elskuleg frænka sem færði okkur systkinum margvíslegar gjafir sem komu í góðar þarfir, ekki síst það sem fatakyns var. Góður erlendur barnafatnaður, eins og vatteraðar vetrarúlpur, voru sjaldséðar hér um slóðir þannig að við vorum stundum eins og klippt út úr tískublaði. Amerísk leikföng, bílar og flugvélar, voru líka í gjafapökkunum frá Diddý á jólunum. Hennar var sárt saknað þegar hún flutti með bandarískum eiginmannni sínum af landi brott og gekk í hjónaband í Boston í mars 1951 og varð frú Thomas Houhoulis. Hann var af grískum ættum, viðkunnanlegur og glaðvær maður. Eftir það fengum við kveðjur frá Diddý og Tom þar sem þau bjuggu á Azoreyjum, í Grikklandi vestur í Kaliforníu og síðar í Fairfax í nágrenni Washington DC. Tom vann fyrir fjarskiptafyrirtækið ITT að uppbyggingu og rekstri radartækja á flugvöllum bandaríska hersins og hafði komið í þeim erindagjörðum til Keflavíkurflugvallar, þar sem þau hjónin bjuggu um tíma.

Á sólbjörtum sumardegi 1949 var ég að

leika mér á róluvellinum á horni Bollagötu og Auðarstrætis, þegar Guðbjörg úr næsta bragga kom móð og másandi að ná í mig og

28

sagði að beðið væri eftir mér og ég yrði að flýta mér. Ég ætti að fljúga til Vestmannaeyja með “Helgafelli”, Douglasvél Loftleiða. Við Kalli bróðir vorum látnir fara í okkar fínasta púss og drifnir upp í bíl með Diddý, sem bauð okkur í þessa síðdegisferð til Eyja fram og til baka. Þarna rættist óskin sem lengi hafði búið með mér þegar ég fylgdist með flugvélunum koma og fara. Að verða nú beinn þátttakandi og fara í fyrstu flugferðina. Veðrið var eins og best varð á kosið. Frábært útsýni og þótti mér skrýtið að horfa til lands, upp á Eyrarbakka og suðurstöndina þegar vélin var komin út yfir sjó. Mér var litið aftur með henni og undraðist það að önnur flugvél skyldi vera komin svo fast upp að okkur. Þetta reyndist hins vegar vera hæðarstýrið eða annar “litli vængurinn” aftan á Helgafellinu eins og ég kallaði hann. Það jók mjög á ánægjuna að Diddý bar fram brjóstsykur handa farþegum til að bryðja svo að þeir fengju ekki hellu fyrir eyrun. Ferðin var ævintýri líkust og enn minnisstæð lendingin í Eyjum, þegar mér fannst Helgafellið vera að reka vængendann utan í hið eiginlega Helgafell.

Að vonum var ég var afar drjúgur yfir þessari upphefð og lýsti henni fjálglega fyrir Níelsi Carlssyni, timburkaupmanni, þegar ég hitti hann næst í heimsókn með Ásu frænku minni hjá þeim hjónum. Nefndi ég meðal annars þá miklu uppgötvun mína að það væri klósett í flugvélinni og hefði ég notað það. “Já einmitt. Það er þá skýringin á því að allt í einu fór að rigna og ég þurfti að setja upp regnhlíf þegar Helgafellið flaug yfir bæinn”, sagði Níels. Þetta var veðurfræði sem ég velti lengi fyrir mér.

Á Reykjavíkurkorti frá 1947 stendur hið

dularfulla orð “Flughöfn” prentað yfir sjóinn í Skerjafirðinum, undan Nauthólsvíkinni. Það var í sjálfu sér ekki undarlegt, því að þar hafði Flugfélag Íslands legufæri fyrir Katalínuflugbát sinn TF-ISP, sem líka var nefndur “Gamli Pétur”. Hann gat aðeins lent á sjó. Þetta var farkosturinn sem fyrstur flugvéla fór með farþega til annarra landa með íslenskri áhöfn, í ágúst 1945, þegar flogið var til Skotlands og

Kaflaskil í flugsögu þjóðarinnar. “Hekla”, fyrsta millilandaflugvél Íslendinga kom til landsins 17. júní 1947. Ég var þar.

Flugliðar Loftleiða 1949. Flugþernurnar Kristín Ágústsdóttir, frænka mín, og Margrét Guðmundsóttir. Flugstjórarnir Smári Karlsson, hálfbróðir móður minnar, og Alfreð Elíasson, flugstjóri, síðar forstjóri Loftleiða og Flugleiða.

“Helgafell” á flugi við Vestmannaeyjar. Mikil samkeppni ríkti í innanlandsfluginu milli Loftleiða og Flugfélags Íslands. Upp úr

1950 urðu Loftleiðir að leggja niður innanlandsflugið vegna skiptingar stjórnvalda á flugleiðum milli félaganna.

29

Kaupmannahafnar. Flugbáturinn var síðan notaður í innanlandsflugi til ákvörðunarstaða víða um land, lenti m.a reglulega á Pollinum á Akureyri. Farþegar voru fluttir um borð í vélina á Fossvoginum með gömlum pramma, sem hafði verið málaður í fánalitunum og var hinn skrautlegasti. Frá baðstaðnum í Nauthólsvík var hægt að fylgjast með starfseminni í kringum flugbátinn eða ferðum erlendra flugbáta, sem stundum höfðu viðkomu, eins og stórir Sunderland frá breska hernum, sem erindi áttu yfir hafsvæðið í kringum Ísland í upphafi kalda stríðsins. Meðan styrjöldin stóð enn yfir hafði hér oft verið fjöldi sjóflugvéla, sem sendar voru til kafabátaleitar.

Ég varð mér einu sinni úti um far að flugbátnum þegar pramminn var í einhverjum snattferðum út að honum. Vélin vaggaði á bárunum, bundin við bauju að sjálfsögðu með “litlu bátana”

á vængendum niðri til að koma í veg fyrir að vængirnir lentu í sjónum ef halli kæmi á flugvélina. Þá fékk ég líka að fara upp í vélina. Hún var innréttuð eins og íslenskir rútubílar á þeim árum en með tvískiptu farþegarými fyrir 22 farþega alls og aðstöðu flugvélstjórans á milli. Katalínan var háþekja og sat vængurinn á uppistöðu sem var há og svo breið að þar inni “í turninum” mátti rúmast maður með alls kyns tæki og tól fyrir framan sig. Hafði hann útsýni um litla glugga til beggja handa. Þetta fannst mér alltaf dularfyllsti staðurinn í Katalínunni og var það aðsetur fyrir loftskeytamann meðan hans þurfti enn við.

Þegar Katalínan var að athafna sig á Skerjafirðinun fylgdi henni eftir lítill hvítmálaður og frambyggður bátur frá flugmálastjórn með alls kyns loftnetabúnaði, eins konar fljótandi flugturn, sem var til aðstoðar og öryggis ef eitthvað brygði út af þegar vélin öslaði um sjóinn full af farþegum. Vindur stóð oftast inn fjörðinn og gat flugtakið hafist rétt fyrir utan Nauthólsvíkina eða þegar beygt hafði verið fyrir endann á Kársnesinu. Þá var farið fyrir fullu vélarafli og gusugangi til norðurs í áttina að Shellstöðinni. Var það

tilkomumikli sjón að sjá flugbátinn brjótast áfram og kljúfa ölduna á síauknum hraða þar til hann náði sér upp úr freyðandi sjávarlöðrinu, sem gaus upp með báðum síðum, og horfa á eftir honum fljúga norður yfir bæinn. Ef TF-ISP fór til eftirlits og viðgerða þurfti að setja á hana spelkur með hjólum af því að hún hafði engan hjólabúnað sjálf og var allsendis farlama á þurru landi nema búin þessum stoðtækjum. Var hún þá dregin upp á steinsteypt plan sem enn má sjá rétt fyrir austan undirstöðurnar úr gömlu Shellbryggjunni í Skerjafirðinum.

“Fjórar Vampire-þrýstiloftsflugvjelar sáust á flugi yfir Reykjavík á sjötta tímanum í gær. Bæjarbúar þustu út á göturnar til að sjá vjelarnar á lofti og víða mátti sjá fólk á húsþökum og úti í gluggum. Þótti mönnum þær fara hratt yfir, enda klufu vjelarnar loftið eins og örskot.”

Þannig sagði Morgunblaðið frá því er fjórar Vampire-orrustuþotur úr breska hernum flugu yfir Reykjavík hinn 12. júlí 1948 í eins konar kurteisisheimsókn en þær tilheyrðu sveit sex þotna, sem höfðu viðdvöl á Keflavíkurflugvelli á leið sinni um Grænland til Norður-Ameríku. Við braggabúar stóðum úti við skítaskurð og horfðum á þessi stórbrotnu undratæki samtímans, rennilegar flugvélar á ofsahraða, sem þeystust fremur lágt yfir flugvallarsvæðið til norðurs með nýrri tegund af hreyflagný, með skerandi són og síðan ógurlegum drunum sem bárust langan veg og við vorum að heyra í fyrsta sinn. Flugmennirnir léku listir sínar með því að velta vélunum á leiðinni fyrir borgina. Þarna stóðum við agndofa á merkum tímamótum. Aldrei höfðu þrýstiloftsflugvélar, eins og þotur voru þá nefndar á íslensku, komið áður til Íslands. Þessar voru þær allra fyrstu. Þær höfðu flogið á tveimur og hálfri klukkustund frá Bretlandseyjum og slegið öll hraðamet, því að áður hafði það tekið að minnsta kosti fjórar klukkstundir að fljúga sömu leið.

Flugvallarsvæðið var ágætlega aðgengilegt ævintýramönnum og forvitnum

30

flugáhugamönnum. Hið sama var að segja um flugskýlin. Þar var meira og minna “opið hús” alla daga fyrir gesti og gangandi, sem skoða vildu flugvélarnar. Hægt að fara upp í vélarnar, smáar og stórar, setjast við stýrið og fara í flugvélaleik. Bara að fikta ekki í tökkunum. Þannig var þetta lengi vel. Í stríðinu hafði svæðið verið girt af með gaddavírsvafningi, sem lagður var meðfram flugbrautunum en þar fyrir innan var vegarslóði, sem talsverð umferð var um milli svæða á vellinum. Gaddvírsgirðingin var ryðbrunnin og varla mannheld lengur. Víða var vírinn slitinn eða hafði verið klipptur í sundur. Það var heldur ekkert mál að fleygja timburplanka á vírhrúguna og pressa hana niður svo ganga mætti greiðlega yfir vírinn. Vegna ferða óboðinna gesta var flugvallarslökkviliðið oft að eltast með sírenuvæli við æringjana sem tóku

þá til fótanna eftir flugbrautunum. Kalli bróðir minn og Guðni vinur hans vildu ekki vera minni menn og voru komnir langt inn á völlinn þegar við í kampnum urðum þess vör. Ég var sendur af stað til að reyna að hlaupa þá uppi og fá þá til að snúa við en flugvallaryfirvöldin urðu fyrri til og tóku af mér ómakið. Æsileg köll bárust um hátalara frá flugurninum þegar þeir félagar voru komnir langleiðina út á miðju vallarins þar sem allar brautirnar mættust og síðan hóf slökkviðliðsbíll eftiförina með blikkandi ljósum og náði þeim skjótt. Eftir þessa lífsreynslu og langa hugleiðingu: “Ef það hefði nú komið flugvél” með viðeigandi áminningu, hygg ég að endi hafi verið bundinn á víðvangshlaup þeirra félaga á flugbrautum.

Fyrstu mánuðina mína í bragganum voru engir strákar á mínum aldri búsettir í hverfinu. Stelpurnar höfðu mig með í hringleikjum og sungum við hástöfum: “Mærin fór í dansinn” eða “Í grænni lautu” og “Frímann fór á engi”. Í kringum flugvöllinn var víða mikill grasgróður og njóli, sem hægt var að fela sig í. Dundað var við að opna “peningablóm” eða tína sóleyjar og baldursbrár. Baka drullukökur og skreyta með sóleyjum. Hins vegar voru hin illræmdu og hávöxnu stingublóm hin varahugaverðustu. Ég þreyttist snemma á þessum stelpuleikjum

Sjóböð í Nauthólsvík og sólbaðsaðstaðan þar naut geysimikilla vinsælda. Það var stutt að fara fyrir okkur en aðrir komu akandi á eigin bílum. Úti á Fossvoginum vaggaði flugbáturinn við bauju.

TF-ISP var fyrsti Katalínuflugbátur Flugfélags Íslands. Síðar komu “Skýfaxi” og“Sólfaxi”. Loftleiðir áttu tvo sams konar flugbáta, “Vestfirðing” og “Dynjandi”. Einnig komu Grumman-bátar við sögu. Þessi farartæki gátu lent úti um allt land meðan flugvelli vantaði.

Rútubílar flugfélaganna fluttu farþega frá afgreiðslum þeirra í Lækjargötunni út á flugvöll eða suður í Fossvog.

31

sem varð til þess að ég gerðist nokkur einfari. Nágranni okkar Hannes Guðjónsson keyrði gamlan vörubíl með “boddíi” á pallinum, sem eiginlega var stór kassi með gluggum og trébekkjum; þjónaði yfirleitt sem afdrep vinnuflokka þegar þeir fóru á milli svæða. Eitt sinn laumaðist ég snemma morguns inn í boddíið og sá fyrir mér skemmtilegan bíltúr um bæinn sem laumufarþegi með Hannesi. Ekki vildi betur til en svo að Hannes fór í vinnu suður á flugvöll og stóð bíllinn þar á bílastæði allan liðlangan daginn en ég þorði mig ekki að hreyfa út úr boddíinu. Var þetta sneypuför hin mesta og fékk ég ærlega yfirhalningu þegar ég kom heim enda hafði fólk leitað að mér um allt nágrennið. Hannes og Silla kona hans voru góðir vinir, sem fluttu svo suður í Voga en voru svo heppin árið 1957 að vinna parhús við Ásgarð 4 í Reykjavík í Happdrætti DAS. Var það verðmætasti happdrættisvinningur sem sögur fóru af á Íslandi. Eftir þetta tóku þau virkan þátt fram á efri ár í safnaðarstarfi Bústaðasóknar, þar sem ég kynntist þeim aftur.

Það varð breyting á mínum högum þegar Einar Jóhann Olgeirsson flutti í braggahverfið með foreldrum sínum og eldri systkinum. Þá fékk ég leikfélaga, aðeins ári eldri. María Olgeirsdóttir, móðir Einars, var systir stjórnmálamannsins

Einars Olgeirssonar en maður Maríu var Olgeir Guðmundsson, trésmiður. Eftir að þau seldu braggann sinn bjuggu þau á Laugavegi 83 og heimsótti ég Einar þangað. María móðir hans var einstaklega hugljúf kona og þá ekki síður amman Solveig, lágvaxin öldruð kona á peysufötum, sem bjó uppi á Lokastíg. Hildigunnur, móðursystir Einars, jafnan kölluð Hidda, starfaði við verslunarstörf í Hljóðfærahúsinu og var hláturmild og skemmtileg kona.

Þær Maja og Hidda voru sannfærðir kommúnistar og ákaflega hreyknar af stjórnmálastörfum bróður síns. Voru þær meðal bestu vinkvenna móður minnar allt til dauðadags. Mér fannst nokkuð sérstakt og æði spennandi að koma í heimsókn á Hrefnugötuna, heim til hins umtalaða Einars Olgeirssonar eldri og finna þar fyrir hinn ljúfa og vinsamlega heimilisföður. Stakk sú ímynd mjög í stúf við þá pólitísku ófreskju sem Einar var sagður vera í málflutningi andstæðinga hans í stjórnmálum. Lærðist mér strax þarna að skynja muninn á persónum einstaklinganna, sem framarlega stóðu í stjórnmálabaráttunni og þeirri opinberu ímynd, sem búin var til af þeim í hita leiksins. Nokkru seinna urðu íbúaskipti í bragga handan götunnar. Þangað fluttu Erla Gunnarsdóttir og

32
Dularfull neðanjarðarmannvirki sem byggð höfðu verið í Öskjuhlíðinni í stríðinu sköpuðu óttablandna spennu.

Sigvaldi Búi Bessason, trésmiður, með syni sína. Nonni var elstur og jafnaldri minn, þannig að við vörðum miklum tíma saman til leikja. Guðni bróðir hans, nokkru yngri, var besti vinur Kalla bróður.

Við Nonni gátum ýmislegt brallað. Nógu mikil var víðáttan til leikja í nágrenni Flugvallarvegarins. Í Öskjuhlíðinni leyndust magnaðar minjar um umsvif hersins á flugvellinum. Þar voru stórar gryfjur með olíutönkum og mikil neðanjarðarbyrgi, sem þóttu hin draugalegustu. Vélbyssuhreiður voru víða grafin í jörðu í nágrenninu og standa nokkur þeirra enn, m.a. úti í Nauthólsvík. Símalínur höfðu legið á milli varðstöðva og hafði herinn beitt þeirri einföldu aðferð að renna þeim af kefli og láta þær liggja á jörðinni.

Undir norðanverðri Öskjuhlíðinni var svæði, sem við sóttum mikið í. Það var flugvélakirkjugarður með braki úr herflugvélum, sem laskast höfðu á vellinum. Hægt var að ganga eða skríða inn í skrokk vélanna og setjast við stýri eða rugga vænghlutum eins og vegasöltum. Skógrækt var ekki hafin í Öskjuhlíðinni en berjamóar þeim mun víðfeðmari og vinsælli síðsumars. Krökkt var af krækiberjum og fólki við að tína þau. Um tíma höfðu mæður með börn áhyggjur af að mæta “bera manninum”, sem blöðin sögðu að spókaði sig á sprellanum í Öskjuhlíðinni. Á baðstaðnum í Nauthólsvík var fólk aftur á móti löglega hálfnakið, þar sem það naut sólbaða í hvömmunum yfir hásumarið og svamlaði í sjónum. Mæður okkar fóru oft með barnahópinn þangað suður eftir.

Amma Nonna var Guðný, gift Reinhold Richter, sem fyrr á öldinni hafði verið þekktur skemmtikraftur, gamanvísnasöngvari og textahöfundur; trúbador þess tíma sem kallaði sig Örnúlf í Vík. Þau bjuggu á Leifsgötu en unnu í sælgætisgerðinni Víkingi og var því oft boðið upp á konfekt á því heimili. Reinhold var líka “galdrakall” því að hann var þjálfaður í sjónhverfingum og ekki amalegt að njóta

33
Ofan við sólbaðslautir í Nauthólsvík stóð Hotel Winston, áður Hotel Ritz, sem Churchill mun hafa heimsótt þegar hann kom til Íslands í stríðinu. Sem leiktæki í Öskjuhlíðinni tókum við Nonni flugvélabrak eins og þetta langt fram yfir vegasölt og rennibrautir á róluvöllum bæjarins.

þeirrar skemmtunar í heimsóknum með Nonna. Guðný amma hans sat oft við píanóið enda var hún dægurlagahöfundur, sem samdi fyrir dægurlagasamkeppni SKT, Skemmtiklúbbs templara, og lifa lögin hennar enn í dag á hljómplötum, eins og “Skipstjóravalsinn”.

Í fámennu braggahverfinu við Flugvallarveginn mynduðust langvinn vináttubönd sumra íbúanna. Allt sambýli tókst með ágætum, þótt mismikið væri á milli húsa eins og gengur og gerist. Heimilisfeðurnir voru sívinnandi iðnaðarmenn, nokkrir trésmiðir, múrari og húsgagnabólstrari. Þá var meindýraeyðir um tíma búsettur hjá okkur og fór hann um með eiturbrasið í skjalatösku á reiðhjólinu sínu. Helgi Bergmann málari og listamaður, Þórey kona hans og börn voru næstu nágrannar.

Synirnir Leifur og Ottó, oftast kallaður Bóbó, voru á unglingsárum, nýfluttir frá Kaupmannahöfn, þar sem fjölskyldan hafði búið á stríðsárunum. Þeir töluðu tæpast íslensku og danska var mikið notuð á heimilinu, m.a. þegar ég var viðstaddur og átti ekki að skilja hvað sagt var. Yngri börnin voru Guðrún, kölluð Søs, og Þórður.

Helgi keyrði um á litlum Renault-sendiferðabíl sem hann skreytti fagurlega með auglýsingu fyrir málaravinnu sína. Þórey eða Eyja sem við kölluðum hana ávallt, var ekki síður listfeng, Hún var flink við að mála vatnslitamyndir og á öskudaginn gaf hún mér og börnum sínum stóra öskupoka úr silki, skreytta með skemmtilegum teiknimyndahetjum Walt Disney eða karakterum úr ævintýrum Grimmsbræðra og íslenskum þjóðsögum. Ég hafði víst frumkvæði að því að leita eftir félagsskap þegar þau voru

nýflutt. Eyja sagði mér, að ég hefði bankað upp á fyrsta degi og spurt: “Eru krakkar hérna til að leika við?” Og þegar ég var kominn inn fyrir þröskuldinn var næsta spurning: “Áttu kók?”

Þeir Leifur og Bóbó voru farnir að taka að sér að bóna bíla gegn endurgjaldi, tóku þá inn í stóra þvottahúsbraggann til alþrifa. Þar var heimilisþvottur annars þveginn í stórum kolakyntum þvottapotti, hinu mesta ferlíki. Stundum var hann notaður til að sjóða slátur. Þvottakörin voru úr viði og þvottaplöggin nudduð ákaft upp úr grænsápu á þvottabrettinu og barin með kefli. Gild gúmmíslanga, sem liðaðist út um allt gólf með sírennsli af köldu vatni, er minnisstæð. Það var ekki mikið samneyti sem við minni krakkarnir höfðum við þá bræður, enda byrjuðu þeir fljótt að vinna fyrir sér. Bóbó var snemma kominn í glæsilegan einkennisbúning sem pikkaló á Hótel Borg.

Það átti fyrir honum að liggja síðar á lífsleiðinni að verða einkabílstjóri bandaríska sendiherrans og starfsmaður sendiráðsins í áratugi. Einu sinni bauð Leifur mér í hjólatúr og sat ég á stönginni hjá honum. Við komum á talsvert mikilli ferð niður Flugvallarveginn frá Pólunum þegar Leifur missti stjórn á hjólinu og ég skall í götuna. Af þessu hlaut ég mikinn heilahristing með uppköstum, var borinn inn í rúm og látinn fá mér eftirmiðdagsblund til að sofa þetta úr mér.

Helsta upplyfting hjá fjölskyldunni var að fara í heimsókn til skyldfólksins á Frakkastíg 9. Þar var jafnan vel tekið á móti okkur á báðum hæðum, hjá Ágústi og hans fólki á neðri hæð og Ásu á efri hæðinni. Heimsóknirnar voru ekki síst spennandi meðan Diddý var enn að fljúga hjá Loftleiðum og kom færandi hendi með gjafir eða góðgæti handa okkur. Á sumrin settist fólkið út á blettinn við lítið bárujárnsskýli í einu horninu og drakk þar kaffi í sólinni. Til hátíðabrigða var gjarnan farið í Sandholtsbakarí og keyptar rjómakökur, bæði napóleonskökur og rjómabátar. Í afmælisboðum voru kaloríuríkar, heimalagaðar rjómatertur,

34
Eyja Bergmann málaði þennan gaur á öskudagspoka handa mér.

Reksturinn var erfiður enda mjög háður veðri og vindum. Á góðviðrisdögum komu Reykvíkingar þúsundum saman í garðinn.

Skemmtigarðurinn í Vatnsmýrinni tók til starfa sumarið 1946. Tækjum fjölgaði með tímanum og veitingastaðurinn Vetrargarðurinn fagnaði gestum. Útiskemmtanir á kvöldin um helgar.

Í Parísarhjólinu tókst mörgum að yfirvinna lofthræðsluna. Í bragganum við hliðina voru spilatæki.

Sumir sögðu það öfugmæli að kalla þetta skemmtitæki. Þeim hafði orði óglatt.

Margir settust í fyrsta skipti undir stýri í bílasalnum í Tívolí. Engar reglur virtar, enda sífelldir árekstrar!

Yngstu gestirnir nutu sín best í jeppum i bílahringekjunni en misvel í draugahúsinu.

Fólk var ófeimið við að sýna listir sínar á hjólaskautunum, þó að illa gengi.

35

Hið stéttskipta samfélag

Um jólaleytið var manni eiginlega uppálagt að hafa samviskubit yfir því að hafa nokkurn veginn til hnífs og skeiðar, í sig og á, og lifa í von um jólagjafir. Það mátti ekki gleðjast um of í tilhlökkun um glaðvær jólaboð og fjörmiklar jólatrésskemmtanir. Til að vega á móti slíkri léttuð las ég ævintýrið um litlu stúlkuna með eldspýturnar af meiri hluttekningu en alla jafna. Og átakanlegar voru sögurnar í barnablaðinu Æskunni af slæmum heimilisfeðrum, sem héldu uppi hávaðasamri jólagleði á knæpum meðan fjölskyldan beið matarlaus heima á aðfangadagskvöldið. Hinir ungu lesendur blaðsins þekktu reyndar ekki samhengið fullkomlega, því að hér var auðvitað engin kráarmenning brostin á. Tiltölulega góð regla var á þessum hlutum enda búið við stranga vínveitingalöggjöf og bæjarbúar slettu aðallega úr klaufunum í djæv og tjútti í sjálfu Góðtemplarahúsinu. Það var líka dansað á skemmtistað templara á Jaðri, þar sem rekið var sumarhótel með rútuferðum úr bænum og sunnudagsveitingum.

Í aðdraganda jólanna hélt ég meira og minna til í lítilli bókabúð á Laugavegi 34, Bókabúð Austurbæjar, þar sem Ása frænka mín starfaði. Ég fékk að vera “jólasveinn”, þ.e. aðstoðarmaður í jólaösinni og lærði þá að pakka inn bókum. Fékk líka að glugga í nýútkomnar bækur. Einn annar aðili naut þeirra fríðinda hjá frænku minni, ung heyrnarlaus stúlka, sem vann fyrir sér í verksmiðju og kom við í búðinni. Hún fékk að fara heim með sýniseintök af jólabókunum áður en röðin kom að mér. Og var greinilega hraðlæs, því að hún skilaði þeim yfirleitt tveim

dögum seinna. Hún var áberandi fær í að lesa af vörum. Í jólaundirbúningnum var samúð mín með þessari stúlku, sem virtist vera mikill einstæðingur.

Kona var nefnd Maren, kölluð Marsa. Hún var blind orðin í hárri elli og sat lengstum á rúmstokknum við ullarvinnu í kjallaraíbúð við Sóleyjargötuna, þar sem hún bjó með Laufeyju, fullorðinni dóttur sem við þekktum og heimsóttum. Laufey, eða Leyja sem svo var nefnd meðal vina, stundaði heimabakstur og seldi fólki smákökur fyrir jólin. Þar var gott að koma en dapurlegar frásagnir af bágum kjörum þeirra mæðgna urðu hluti af jólasögunni minni. Marsa hafði verið hafnarverkakona sem einstæð móðir í Reykjavík og erfiðaði með kolapoka á bakinu í uppskipunarvinnu. Þegar ég horfði á kolakranann yfir kolabingnum í portinu hjá Kol & salt við höfnina fannst mér hann eins og tröllvaxið minnismerki um Maren og stöllur hennar. Sennilega urðu kjör þeirra enn síðri eftir að þetta stórvirka tæki, sem kallað var “Hegrinn” tók frá þeim vinnuna.

Ég kannaðist reyndar við nokkra fleiri, sem ég fann til með yfir hátíðarnar. Í þeim hópi voru kostgangararnir, sem komu í fæði til Ellu, nágrannakonu Ásu frænku. Það var ennþá eldað við gas hjá Ellu sem við heimsóttum á Laugaveg 53 og hin hráa og sérstæða ólykt af gasinu virtist föst í tréveggjunum, veggfóðrinu og tók sér varanlega bólfestu í fötum heimilisfólksins. Hjá Ellu var hátíðarmaturinn eldaður fyrir meira en 20 manns því að einhleypir, rosknir og þreyttir menn komu þarna saman og borðuðu, ræddu málin og tóku í spil. Á gamlárskvöld mætti einn

36

þeirra með harmonikku og einhver brjóstbirta var í glösunum. En svo yfirgáfu þeir húsið einn af öðrum og gengu út á fáfarna götuna hver í sína áttina. Tróðu snjóinn til síns heima, þar sem einsemdin beið eftir þeim og boðaði enn eitt tilbreytingalítið ár í lífi þeirra.

Fyrir utan fjölskylduboðin okkar á Frakkastígnum fór ég stundum í skemmtiferðir með Ásu og kynntist þá lifnaðarháttum góðborgara og hinna efnameiri úr hópi vinafólks hennar. Níels Carlsson og Kristjana, kona hans, sem áttu timburverslun Árna Jónssonar, fóru oft í sunnudagsferðir og buðu gestum með í lítilli einkarútu, sem þau kölluðu Stóra-Kláus. Kristjana, eða Lilla Árna eins og hún var kölluð, bakaði eplaskífur og útbjó annað lostæti af þessu tilefni til að hafa með kaffinu. Það var gaman að kynnast nærliggjandi svæðum hér á suðvestur-horninu í þessum ökuferðum með Níelsi og Lillu.

Ekki voru heimsóknirnar upp í Hlíð í Mosfellssveit síðri. Svo hét sumarbústaður fyrir ofan Reyki í eigu Klöru Bramm og Jóns Helgasonar, eigenda Fatabúðarinnar við Skólavörðustíg. Þangað fórum við Ása með rútunni að Reykjum. Þar var gengið varlega um hlað ef bölvið í bola barst út úr fjósinu en síðan lagt á brattann, upp veginn, sem Jón hafði lagt sjálfur að sumarbústaðnum. Húsið var hið glæsilegasta og landið í kring eins og í ævintýri. Hafði Jón verið sinn eigin landslagshönnuður og lagt í mikla skógrækt en lítil á liðaðist um landareignina. Oft fengum við svo bílfar með Jóni á sunnudagskvöldi í bæinn í dökklitaðri drossíu af Chryslergerð, módel 1947.

Fyrir mig voru það mikil umskipti frá hinni hversdaglegu tilveru í bragganum að kynnast þessu vel efnaða og góða vinafólki Ásu. Báðar fjölskyldunnar bjuggu í stórum glæsiíbúðum við Laugaveg 41 og Skólavörðustíg 21, sem búnar voru öllum nýjustu heimilistækjum og þægindum. Þetta var fólk, “sem blakti” eins og Ása tók til orða. Lilla Árna var lágvaxin og hnellin, einstaklega hláturmild og sá spaugilegu

Hegrinn við höfnina, öðru nafni kolakraninn, hífði kol úr skipum og losaði í bing í portinu. Kolin voru m.a. seld til upphitunar húsa. Gufuskipin þurftu kol til að brenna. Kyndarar um borð höfðu þann starfa að moka kolum í brennsluofna gufuvélanna. Þar var ansi heitt.

Gasstöðin við Hlemm brenndi kolum og framleiddi gas sem flutt var um gasleiðslur til heimila og fyrirtækja í bænum. Gasnotkun til eldunar og ljósa í Reykjavík var að renna sitt skeið á enda.

Sannkallaður unaðsreitur.

Sumarbústaðurinn Hlíð í Mosfellssveit. Ekki lóð, heldur heilt landslag, sem Klara og Jón í Fatabúðinni ræktuðu fyrir ofan Reyki. Þar vorum við aufúsugestir og alltaf jafn gott þangað að koma.

37

hliðarnar á öllu mögulegu. Hún var einkadóttir Árna Jónssonar, timburkaupmanns, sem uppnefndur var Árni “viðbjóður” til samræmis við timbursalatitilinn. Einu sinni tók Lilla upp á því að liggja á hænueggi meðan hún var rúmföst af sjúkdómi. Ungi kom úr egginu og varð að pútu, sem fetaði sig tígulega um eldhúsgólfið. Níels lét smíða lítið “einbýlishús” til að hafa fyrir hænuna í eldhúsinu. Klara Bramm var einstaklega prúð og vingjarnleg kona, hæglát en með húmorinn í lagi. Þetta var fólkið sem stóð í siglingum, tók einkabílana með sér á “Brúarfossi” og ók síðan um Evrópu allt suður til Spánar.

Oft var Ásu boðið með en hún þáði það aldrei. Þegar þær systur Diddý og síðar Erla urðu flugþernur, buðu þær Ásu að koma með til útlandsins. En því var hafnað. Ásu dugði alla ævi að hafa einu sinni siglt með gamla “Gullfossi” þegar hún söng í kór Sigfúsar Einarssonar, sem tók þátt í norrænu kóramóti, Nordisk Sangerfest, í Kaupmannahöfn 1929. Ég var öðru vísi innstilltur. Póstkort með myndum frá ævintýralegum stöðum eða útlend frímerki kveiktu útþrá mína en allmörg ár liðu þangað til draumurinn rættist. Þangað til gerði ég mér að góðu að fara stöku sinnum í pikknikk með

heldra fólkinu en aðallega voru ferðirnar með strætó inn að Kleppi eða Rafstöð við Elliðaárnar sunnudagsdraumurinn minn.

Ertandi angan lagði af bensíngufunum, blönduðum kolsýringseimi inni í þessum gömlu skrapatólum, sem Strætó, S.V.R. notaði til að flytja fólk um bæjarlandið. Sætar minningar. Þá lágu hin raunverulegu byggðamörk niðri við Lönguhlíð og Ás á Laugavegi. Aðallega herskálakampar þar fyrir austan. Vagnstjórinn kallaði upp heiti viðkomustaðannna. Sagt var að hópur þýskra ferðamanna hefði stokkið í dauðans ofboði út úr vagninum þegar bílstjórinn kallaði “Ás”(Aus á þýsku=Út!).

Maður man enn nöfnin á stoppistöðvunum á leiðinni inn eftir: Ás, Tunga, Undraland, Múli, Álfabrekka, Hálogaland. Eða Seljalandsvegur, Háaleiti, Klifvegur eða Sjónarhóll og Réttarholt. Oft nöfn á sveitabýlum sem enn voru í Kringlumýri og Sogamýri. Þar var stundaður landbúnaður og mjólk seld á heimili bæjarbúa eða í mjólkurstöðina við Bergþórugötu og Hringbraut, sem nú heitir Snorrabraut. Ný mjólkurstöð efst við Laugaveg hóf starfsemi nokkru seinna. Það var Ása frænka, sem bauð mér í þessar sunnudagsferðir frá unga aldri. Við Klepp og Elliðaárnar var tímajöfnun svo

38
Það var mikið ævintýri að fá far í nýja Chryslernum hans Jóns í bæinn eftir góðan sunnudag í Hlíð. Svona amerísk drossía var ekki beinlínis gerð fyrir akstur í rykmekki og steinkasti á holóttum malarvegum landsins.

að við fórum út úr vagninum og skoðuðum okkur svolítið um. Mér stóð nokkur stuggur af Kleppi og hélt fast í höndina á frænku minni ef vistmenn nálguðust okkur. Pálína hét fullorðin, gráhærð kona, sem gekk mikið um næsta nágrenni í Langholtinu, þar sem risin voru íbúðarhús í Sundunum í námunda við snotra sumarbústaði með fallegum trjágróðri sem breiddi úr sér meðfram Langholtsveginum. Það var greinilegt að hin þögla og fölleita

Pálína, sem talaði mikið við sjálfa sig, vakti forvitni og nokkurn ugg hjá ungu kynslóðinni.

Mamma hafði sagt mér sögu af því, að þegar hún vann við eggjabú í Langholtinu og var á leið fótgangandi inn í Reykjavík, hefði hún orðið þess vör, að karlmaður, sem hún vissi að dvaldist á Kleppsspítalanum, greikkaði sporið og veitti henni eftirför. Hún tók stærri skref og hljóp við fót þegar hún varð þess vör að maðurinn hafði tekið undir sig stökk og var við að ná henni. Mamma var spretthörð og hófst nú mikið kapphlaup. Að lokum hafði maðurinn betur og mamma bjóst við hinu versta. Hann sló í bakið á henni - og sagði “Klukk” – sneri við á punktinum og tók sprettinn aftur heim að Kleppi.

Vagnakostur S.V.R. á þessu árum var orðinn býsna lúinn. Fyrirtækið stóð illa peningalega og bílarnir orðnir gamlir og af ýmsum ólíkum gerðum, þó aðallega amerískir “Stúdebeikerar” en nokkrar aðrar tegundir sem voru örugglega erfðagripir úr fórum Sölunefndar setuliðseigna. Allir voru þeir óþéttir svo að rykið af malarvegunum, sem voru uppistaðan í gatnakerfi Reykjavíkur, barst um allan vagninn á góðviðrisdögum. Það var öllu meiri stíll yfir Hafnarfjarðarstrætó. Nýir Skóda-vagnar stóðu á biðstöðinni í Læjargötu gegnt Búnaðarfélagshúsinu og buðu upp á lengri ökuferð til skemmtunar á sunnudögum. Ferðalög í slíkum glæsikerrum suður í Hafnarfjörð tóku öllu öðru fram. Í vagninum sat bílstjórinn framan við gler og tjald; hafði engin samskipti við farþega en bílfreyja sá um að selja farmiðana. Það var líka tengivagn aftan í þessum bílum með viðbótarsætum

Líflegt í Austurstæti. Miðbærinn þjónar mikilvægu hlutverki fyrir alla bæjarbúa. Búðir, bankar og bíó troðfull af fólki. Stætisvagnar á ferð um endastöðina við Lækjartorg. Leiðakerfið að færast út til nýrra hverfa.

Enn var leyfilegt að keyra frá Lækjartorgi upp Bankastrætið. Gömul herrúta undir merkjum S.V.R nálgast gatnamótin við Ingólfsstræti áður en beygt var upp Skólavörðustíg og haldið áfram í austurbæinn.

fékk 8 glænýja Skoda-almenningvagna eins og þennan árið 1947 til aksturs milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Það var toppurinn að fá að sitja í litla tengivagninum.

39
Póstmálastjórnin

þegar miklir flutningar voru. Og svo var brunað af stað suður Fríkirkjuveginn og Hringbraut, upp Hafnarfjarðarveg og Öskjuhlíð fyrir ofan Pólana. Þaðan lá leiðin út í óbyggðirnar. Fossvogur og Kópavogurinn að mestu ónumið land fyrir utan sjálft Kópavogshælið en sumarbústaðir á stangli. Fáein hús á leiðinni um núverandi Garðabæ, svæðið oftast kallað Silfurtún, en í fjarska sást til Vífilsstaða sem risu upp af samfelldu graslendinu langt uppi í landi.

Skömmu síðar var ekið framhjá danspallinum í Engidal við vegamótin út á Álftanesið. Þar voru haldin fræg böll undir berum himni. Hafnarfjörður var enginn svefnbær Reykjavíkur á fimmta áratug síðustu aldar heldur algjörlega sjálfbært samfélag en svo vel innan viðráðanlegra marka fyrir almenning í Reykjavík, að fólk hafði ráð á að skreppa suður í þennan fallega og vinalega bæ til að fara í Bæjarbíó eða Hafnarfjarðarbíó. Ellegar þá að eyða eftirmiðdagsstund þar syðra á helgidögum og borða nestið sitt í Hellisgerði. Þannig var Hafnarfjörður fyrir okkur eins og útivistargarðar og afþreyingarbæir stórborganna í útlöndum. Sérstök tengsl voru þannig milli Hafnarfjarðar og minnar kynslóðar, er átti þangað þau erindi að njóta fegurðar bæjarins og sjá góðar bíómyndir, sem oft þóttu eftirsóknarverðari en það sem í boði var hjá kvikmyndahúsum höfuðborgarinnar.

Ég var kominn í Hellisgerði fyrir margt löngu, 5 eða 6 ára strákur með Ásu frænku og Láru Samúelsdóttur vinkonu okkar af Laugaveginum. Hún var í mínum augum sannkölluð heimskona, sem hafði á fyrstu áratugum 20. aldar dvalist langdvölum í Kaupmannahöfn og Berlín og umgekkst eintóm séní eins og Kjarval og Einar Jónsson, myndhöggvara og fleira listafólk. Þar sem við stóðum við litlu tjörnina í Hellisgerði í sumarblíðunni innan um fjölmenni veittum við því athygli, að flaggað var í hálfa stöng í skrúðgarðinum. Upphófst nú heilmikið skraf og vangaveltur um tilefni þessa en Lára beið ekki boðanna og gekk hreint til verks,

sá einhvern mektarmann úr Hafnarfirði handan tjarnarinnar og hrópaði svo undir tók í hraunveggnum: “Halló, manni. Hver er dauður?” Alveg vafningalaust og komið beint að kjarnanum. En mektarfólkið úr Hafnarfirði, sem stóð þarna álengdar, var greinilega þrumu lostið og stirðnaði upp. Setti líka upp svip. Ég skammaðist mín niður í tær. Skýringin: Það var föstudagurinn langi.

Annars var Lára Sam. löngu áður orðin eins konar þjóðsagnapersóna í Reykjavík. Hún bjó á Laugavegi 53B og var oft á ferðinni, lítil og nett og næstum hljóp við fót. Hún var alltaf að flýta sér. Eitt sinn á stríðsárunum var á henni mikill asi á laugardagsmorgni, þegar hún þurfti að komast niður í Útvegsbanka fyrir lokun á hádegi. Á horni Bankastrætis og Skólavörðustígs var öll umferð skyndilega stöðvuð því að niður Skólavörðustíginn kom fjölmenn bresk hersveit þrammandi í takt með lúðraflokk í broddi fylkingar og beygði niður í Bankastrætið. Nú voru góð ráð dýr fyrir Láru með bankabókina. Nema hvað. Hún smeygði sér inn í herfylkinguna fyrir aftan lúðraflokkinn og marséraði með henni niður að dyrum Útvegsbanka þar sem hún náði að stökkva inn í afgreiðsluna rétt í þann mund sem dyrum var skellt í lás. Gott eftirdæmi fyrir verðandi fréttamann, að láta ekki óvænt atvik og hindranir hefta för sína að fyrirfram ákveðnu marki heldur haga sér eftir síbreytilegum aðstæðum.

Á næstu árum urðu ferðir mínar um ofanverðan Laugaveginn æ tíðari. Svæðið þar í kring, frá strandlengjunni við Skúlagötu upp á Skólavörðuholt, og frá Barónsstíg niður á Klapparstíg varð athafnasvæði mitt og leikfélaganna, sem þarna bjuggu. Ég var hins vegar aðallega gestkomandi, annað hvort á Laugavegi 85 eða á Frakkastíg 9 hjá Ásu frænku minni. Þarna var ýmislegt á seyði. Laugavegurinn var lifandi verslunargata með ótal litlum matvörubúðum og sérverslunum af ýmsum toga. Silli og Valdi ráku tvær verslanir á svæðinu. Kjötbúðin Borg, Von, Skjaldberg,

40

Matarbúðin og Tómas Jónsson voru á næsta leiti. Nokkir söðlasmiðir ráku verkstæði og búðir í nágrenninu. Á horni Frakkastígs voru verkfæra- og byggingavöruverslunin Málmey og búsáhaldaverslunin Hamborg. Milli Frakkastígs og Klapparstígs voru Sokkabúðin, Vesta, Iðunnar apótek, Frank Michelsen, Bækur og ritföng, Sandholtsbakarí, Verslun Matthildar Björnsdóttur, Bókabúð Austurbæjar, Verslun Guðsteins Eyjólfssonar, Efnalaug Reykjavíkur, Victor, Verslun Marteins Einarssonar, Brynja, Málning og járnvörur, Fálkinn, Dyngja og K. Einarsson og Björnsson svo nokkuð sé nefnt. Ég tók sérstaklega eftir hrákadallinum í

Málmey. Enn tíðkaðist það í sumum verslunum höfuðstaðarins að bjóða viðskiptavinunum upp á að hitta í mark, þ.e. hrækja eins og þá lysti á staðnum og losa sig við kverkaskítinn eða munntóbakið í hrákadall úti í horni.

Mörgum kaupmanninum og verslunarmanninum hefur maður kynnst um ævina. Þeirra á meðal voru Raggi og Ingólfur ásamt Jóni hjá Silla og Valda, Sara og Siggi í Sokkabúðinni, Mekkinó í Victor, Gunnarar (Hannesson og Marteinsson) hjá Marteini, og auðvitað Marteinn sjálfur og bróðir hans Kristinn Einarsson í Dyngju. Þá má ekki gleyma Guðsteini klæðskera, sem alltaf var með vindilstubb í munnvikinu og málband um hálsinn. Innar á Laugaveginum stóð Gunnar í Von við afgreiðsluborðið í kjötbúð sinni og afgreiddi þjóðlegan mat, klæddur hvítum stuttsloppi sem ataður var blóðblettum eftir kjötskurð. Hann sneiddi niður hákarlsbita fyrir viðskiptavinina að smakka allan ársins hring. Enn innar við götuna var Þorbjörn kaupmaður í Borg, hávær og léttur í lund að gantast við frúrnar sem komu að kaupa inn. Sumir aðrir viðstaddir ætluðu að verða sér úti um tilbúna heita rétti sem Þorbjörn hafði á boðstólum. Og rétt innan við Barónsstíginn var fiskbúðin hans Bjössa sem var ræðinn og skemmtilegur karl. Þannig mætti lengi telja. Tæpast varð þverfótað fyrir kaupmönnunum við Laugaveginn á árum áður enda eðlilegt þá að þeir þjónuðu sínu næsta nágrenni vel, meðal fólks sem átti

41
Laugavegurinn við Vatnsstíg. Lífleg verslun hvernig sem viðraði. Jólaverslun. Peningarnir flæddu inn í rafknúna búðarkassa. Biðraðir voru yfirleitt við verslanir en ástandið skánaði fyrir jólin. Biðröð í grenjandi rigningu við skóbúð í Bankastæti. Spurst hafði að nýr skófatnaður væri kominn. Þetta var kallað “bomsuslagur”.

ekki annarra kosta völ en að fara fótgangandi um götur bæjarins, og húsmæðurnar yfirleitt heimavinnandi. Verslunarkeðjur voru ekki til. Fyrirtæki Silla og Valda komst kannski næst því með eitthvað á annan tug verslana um alla Reykjavík. Þessir landskunnu kaupmenn og milljónerar höfðu vit á að berast svo lítið á að fæstir vissu hvor var Silli og hvor var Valdi. Ég komst að því hver Silli var, en minnist þess ekki að hafa séð Valda. Silli fór hægum og virðulegum skrefum um götur bæjarins á kvöldgöngu með sinn Battersbyhatt á höfði og hendur fyrir aftan bak. Það var eins og hann væri að telja búðirnar sínar á þessum ferðum fyrir svefninn og gá hvort þær væru nú ekki örugglega allar á sínum stað. Í samkeppni við einkaframtakið var svo KRON, verslanakeðja með kaupfélagasniði, þar sem viðskiptvinirnir gerðust gjarnan félagsmenn og nutu betri kjara fyrir bragðið. En rekstur KRON gekk illa og hafði á sér kommastimpil enda hampað mjög í Þjóðviljanum. Hefur það vafalaust dregið úr vinsældunum á kaldastríðsárum.

Á Frakkastíg og Hverfisgötu fór ég oft í búðir fyrir frænku mína. Neðarlega við Frakkastíginn var Saltfiskbúðin. Þar var Gústi í forsvari og gustaði af honum, þar sem hann óð vatnselginn á steingólfinu í klofstígvélum með hattkúf á hausnum og notaði járnkrók á löngu skafti til að

Við versluðum mikið hjá Silla og Valda á Laugavegi 41. Þar var Ragnar Ólafsson, verslunarstjóri, bjó í nágrenninu og var gamall kunningi fólksins á Frakkastígnum. Á þessari mynd stendur hann innst við afgreiðsluborðið.

krækja í fisk í fjallháum fiskbingnum á miðju gólfi. Sveiflaði svo ýsunni á króknum framan að manni með óumflýjanlegum slettugangi og hrópaði: “Úrvals línufiskur”, af því að kúnninn kaus frekar fisk af dagróðrabátum en togarafisk sem legið hafði í ís um borð dögum saman. Síðan var vír stungið í gegnum augun á ýsunni, endarnir vafðir saman og maður kominn með ágætt handfang til að bera soðninguna heim.

Fyrir neðan fiskbúðina hjá Gústa lá leiðin inn í sund við Tindastól, húsið á horni Hverfisgötu og Frakkastígs á móti Lúllabúð. Þar innst inni var komið að yfirlætislausri nýlenduvöruverslun hjá Sigmari. Hann höndlaði með margt, m.a. bökunarvörur, steinolíu og sælgæti. Vog frá 19. öldinni með lóðum af öllum stærðum og þyngdum var dæmigerð fyrir viðskiptahættina sem þarna voru stundaðir. Sigmar sjálfur vakti þó mesta athygli mína fyrir stóra kúlu á enninu sem sat þar varanlega föst. Á Laugaveginum var annar kaupmaður dálítið stærri í sniðum en ekkert hærri í loftinu, Marteinn Einarsson, sem var aftur á móti með holu á enninu. Ég sökkti mér stundum í djúpar hugleiðingar um það, hvort kúlan á Sigmari myndi passa ofan í holuna á Marteini, ef þeir féllust í faðma og mynntust eins og gömlu karlarnir gerðu gjarnan enn þegar þeir hittu fagnandi frændur og vini. Sagt var að einhver góðborgarinn hefði á góðri stund verið

42

að lýsa þessu auðkenni Marteins fyrir dönskum gestum og sagt að hann hefði “et hul på enden”. Þótti hinum gestkomandi Dönum víst ekkert merkilegt að Íslendingar væru þannig skapaðir um afturendann, og leiddu talið að öðru.

Lúllabúð hafði töluverða sérstöðu. Hún þjónaði íbúunum í kring með góðu vöruúrvali og lipurð Lúðvíks Þorgeirssonar og afgreiðslumanna, sem störfuðu honum við hlið. En fyrir utan Lúllabúð stoppaði forsetabíllinn líka gjarnan snemma

á sjötta áratugnum. Þá var Kristjón bílstjóri að sækja aðföng fyrir Bessastaði og Ásgeir forseta. Borgarstjórabíll Gunnars Thoroddsen stóð þar ósjaldan í svipuðum erindagjörðum. Í næsta húsinu neðar við Hverfisgötu, nr. 59, var mjólkurbúðin. Þar réði ríkjum nafna prinsessunnar og væntanlegs ríkisarfa í Englandi, Elísabet, sem stóð þar inni á gólfi og jós mjólk með mæliausu upp úr stórum mjólkurbrúsum frá mjólkurstöðinni í aðra minni, sem viðskiptavinirnir komu með að heiman. Afgreiðslukonurnar í búðinni voru í hvítum sloppum með hvíta, síða höfuðklúta. Minntu helst á hjúkrunarkonur á spítölum Ég keypti ýmist tvo potta (lítra), pott eða hálfpott. Rjóminn var afgreiddur úr smærri ausum með sama hætti en þó helst í litlar glerkrúsir, gjarnan fyrrum sultukrukkur, sem fólkið kom með. Algengt að það væri einn desílítri. Síðan var smjörpappír settur á opið og teygju smeygt yfir. Smjörpappírinn var líka notaður utan um skyrið, sem afgreitt var eftir vigt úr tunnu og klínt með spaða í smjörpappírinn á voginni en hann síðan vafinn inn í betri umbúðapappír.

Á Laugavegi 34 var Bókabúð Austurbæjar, þar sem Ása frænka mín starfaði. Þegar ég hafði fengið að gista á Frakkastígnum fórum við Ása að opna bókabúðina. Eins og algengt var í verslunum á þessum slóðum hófst dagurinn með þvotti á búðargluggunum. Síðan gluggaði ég eitthvað í barnabækur baka til en fór síðan út að leika mér með Pétri Arasyni, sem átti heima í húsi Þórðar á Hjalla, er svo var nefnt, rismikla timburhúsinu á horni Frakkastígs, við Laugaveginn norðanverðan. Þar bjuggu Ari

Í mjólkurbúðinni. Stór brúsi með mjólk frá mjólkurstöðinni og misstórar ausur til að mæla mjólkina í minni brúsa sem kúnnarnir komu með í búðina.

43
Búðarvigtin hjá Sigmari kaupmanni var komin til ára sinna og alveg eins og þessi, með vogaskálum og lóðum.

Jónsson, klæðskeri, og Heiðbjört kona hans ásamt þremur sonum sínum og auk þess Kristín Björnsdóttir og Pétur Benediktsson, foreldrar Heiðbjartar. Ari var klæðskeri og hafði saumastofu á Laugavegi 47 en stofnaði svo fyrirtækið Faco árið 1950, sem varð síðar mjög umsvifamikið í fataframleiðslu og innflutningi og sölu sjónvarps- og hljómflutningstækja.

Við Pétur fórum í sendiferðir fyrir Ara, þegar hann var að hefja fataframleiðsluna. Jóna hét afkastamikil saumakona við ofanverðan Barónsstíg sem Ari fékk til að sauma fyrir sig karlmannabuxur. Það var upphafið að Faco, Fatagerð Ara og Co. Við roguðumst með tilsniðið efnið í buxurnar í gríðarstórri leðurtösku, sem við nánast drógum á eftir okkur upp brattann á Frakkastígnum og í gegnum braggahverfið á Skólavörðuhæðinni, framhjá allra fyrsta áfanga Hallgrímskirkju sem þá var einvörðungu austasti hlutinn, nú kjallarinn undir kórnum með röð lítilla glugga. Uppi á bráðabrigðaþaki þessa yfirlætislausa guðshúss voru tveir hátalarar og við kirkjulegar athafnir var leikin grammófónplata með klukknahringingu Westminster Abbey i London, þannig að ekkert skorti á hljómmikinn, klingjandi mikilfengleik þegar kirkjugestir komu til messu á sunnudögum. Í bakaleiðinni höfðum við Pétur gjarnan viðkomu í Listvinahúsinu, og fylgdumst með þegar starfsfólk hjá Guðmundi Einarssyni frá Miðdal var að móta og brenna leirmuni, sem áttu eftir að vera til skrauts á nálega öllum íslenskum heimilum, svo sem rjúpa, fálki og hrafn.

Fjaran niður af Skúlagötu og síðasta bryggjan neðan við Kveldúlfshúsin voru eitt af eftirlætisleiksvæðum okkar. Þar fyrir innan var sláturhús Sláturfélags Suðurlands, sem gegndi enn sínu upprunalega hlutverki eins og nafnið benti til. Fé var flutt á fæti á vörubílum inn í portið Lindargötumegin og var þá ekki að spyrja að leikslokum fyrir sílspikuð lömbin, sem jörmuðu neyðaróp sín, sjálfsagt fullviss um hvað í vændum væri. Stórgripir voru einnig leiddir inn í portið til slátrunar. Þegar umsvifin

voru mest flæddi blóðið eins og stórfljót út úr portinu og niður í ræsi undir Skúlagötuna og út í fjöruna. Aðfallsaldan lék við rauðlitaða blóðflekkina meðan sláturtíðin stóð sem hæst. Þess á milli sá maður hvítklædda starfsmenn fara með vínarpylsur og bjúgu í löngum kippum til reykingar milli húsa í portinu. Húsmæður bæjarins komu og mynduðu langar biðraðir eftir að taka slátur; höfðu með sér stóra þvottabala fyrir vambir og mör sem þær báru á milli sín heim. Blóðið fengu þær afgreitt á brúsa. Einhverjir hvatamenn fyrir svartan húmor sögðu að þýskum túristum brigði mjög í brún þegar þeir sæju blóðið renna stríðum straumum frá höfuðstöðvum Sláturfélagsins sem voru kirfilega merktar “SS”.

Þegar skyggja tók barst dauf birta frá logandi eldstæðum í ryðbrunnum bárujárnsskúrum sem stóðu nokkrir við fjörukambinn neðan við sláturhúsið og þar eilítið innar við Skúlagötu. Gamlir karlar sátu þar inni og unnu við að svíða kindahausa og lappir. Stórskorin, skeggjuð og hrukkótt þjóðsöguleg andlit þessara öldunga urðu tröllsleg í rauðleitum bjarmanum frá hlóðunum, þar sem þeir sátu með sótugar tangir við handverk sitt. Ekki laust við að hjartað færi að slá hraðar þegar maður leit inn um gættina hjá þessum orðfáu heljarmennum, sem störðu í eldinn.

Aðrar afurðir bændanna áttu greiða leið í annað iðnfyrirtæki, sem stóð gegnt okkur við Frakkastíginn. Þar var ullarverksmiðjan Framtíðin sem spann löngum ullina og litaði. Ullarreifin komu úr sveitunum pökkuð inn í miklar strigaumbúðir, sem hífðar voru upp á geymsluloft með talíu utan á verksmiðjuhúsinu. Afi Péturs og nafni hans starfaði sem afgreiðslumaður í Framtíðinni og seldi lopa og garn. Þess vegna fengum við að skjótast upp á geymsluloftið og leika okkur innan um ullarballanna, sem voru mjúkir viðkomu og tilvaldir fyrir alls kyns loftfimleika. Trambólín þess tíma. Annars voru heimsóknirnar tíðari upp á háaloft heima hjá Pétri, þar sem stórt og mikið rými bauð upp á leikritauppfærslur,

44

galdrasýningar og aðra skemmtan að viðstöddum áhorfendum.

Bílarnir á götunni vöktu athygli og við söfnuðum bílnúmerum, sem við skráðum í skrifblokkir. Yfirleitt voru þessi farartæki orðin gömul og lúin, gjarnan amerískir og breskir bílar frá því fyrir eða eftir stríð. Litlir, svartir Austin og Morrisbílar af yngri árgerðum voru nokkuð algengir. Elsti bílinn á götunni var frá 1923. Metárið í innflutningi nýrra bifreiða hafði verið 1940, þegar 2100 bættust við. Ef nýr bíll sást á götunni var það himnasending enda tækið grandskoðað í hólf og gólf. Nokkur fjörkippur kom í bílainnflutninginn 1950. Þá voru skráðir 136 nýir bílar. Hins vegar fækkaði bílum í landinu árið 1951. Þá voru 5473 ökutæki í Reykjavík, 3641 fólksbíll, 1739 vörubílar og 93 bifhjól, eða röskur helmingur allra bíla og bifhjóla á landinu. Það voru ekki síst happdrættisbílarnir, sem athygli vöktu. Þeir stóðu gjarnan í Bakarabrekkunni, neðst í Bankastræti á gangstéttinni við almenningssalernin í Bankastræti 0, “núllið.”

Við opinn glugga á bílnum sat sölumaður liðlangan daginn með útrétt miðabúnt og bauð vegfarendum miða til kaups. Hin ýmsu líknarfélög og íþróttasamtök höfðu oft nýja bíla sem aðalvinninga í happdrættum og þá duttu menn sannarlega í lukkupottinn ef þeir eignuðust bíl fyrir slikk eins og hag fólks var háttað og innflutningshöftum. Man ég sérstaklega eftir stórglæsilegum amerískum Hudson-dreka, sem stóð gljáfægður þarna i Bakarabrekkunni, sem svo var alltaf kölluð af mínu fólki; dró nafn sitt af Bernhöftsbakaríi sem þarna stóð endur fyrir löngu. Árið 1946 hafði Samband íslenskra berklasjúklinga heila flugvél sem aðalvinning í sínu happdrætti, lítinn flugbát af gerðinni Seabee, sem gat lent bæði á láði og legi, og fylgdi námskeið til einkaflugmannsprófs með í kaupunum. Þessi flugvél átti að henta hinum heppnu eigendum til flugferða í veiðivötn á hálendinu. Ég sá hana nokkrum árum seinna, þegar hún öslaði á hjólum upp í fjörusandinn úr sjónum neðan við Málningarverksmiðjuna Hörpu við Skúlagötu. Öfundin brann í augum mér þegar

45
Enn var mjólkin frá býlunum í nágrenni bæjarins keyrð á hestvagni um Laugaveginn í mjólkurstöðina. Nútímalegt farartæki. Happdrættisflugvél SÍBS lent á Laugarvatni. Breskir Morrisbílar voru algengir á götum Reykjavíkur.

ég leit til fólks sem þarna var saman komið til að kaupa sér far í stutt útsýnisflug yfir borgina með þessari litlu sjóflug sem var með hreyfil og spaða aftan við stjórnklefann og farþegarýmið. En það þýddi ekki að hún flygi aftur á bak eins og ég hafði velt vöngum yfir fyrst þegar ég leit hana augum, ungur og óreyndur. Annars var það ekki heiglum hent að ganga um fjörurnar eftir strandlengjunni, því að opnir stútar frá holræsum lágu þar hver af öðrum meðfram henni allri og spýttu saur og klósettpappír út um allan fjörusandinn þar til flæddi að og sjórinn skolaði öllu gumsinu með öldunni utar á sundin blá.

Þó að endurnýjun bílaflotans gengi hægt töldu bæjaryfirvöld tímabært

árið 1950 að setja upp fyrstu umferðarljósin

eða götuvitana eins og nýyrðasmiðir vildu láta þau heita. Það er til marks um tilbreytingarleysi bæjarlífsins

að þetta var stund sem beðið var eftir þegar blöðin höfðu skilmerkilega greint frá hvað til stæði; stað og stund. Við biðum þess með eftirvæntingu að sjá til skiptis rauð, gul og græn ljós sem voru auðvitað miklu tilkomumeiri en umferðaskiltin sem stóðu á götuhornum með áletruninni: “ STANZ aðalbraut STOP”. Fyrstu götuvitarnir voru settir upp á gatnamótum Austurstrætis og Póshússtrætis, Lækjargötu og Bankastrætis og Laugavegar og Skólavörðustígs.

Tilkoma umferðarljósanna og virðingarleysi gangandi vegfarenda fyrir þeim varð tilefni ótal blaðagreina og lesendabréfa. Hugleiðing Velvakanda Morgunblaðsins var á þessa leið og snerist líka um áhugaleysi Íslendinga um lög og reglur.

“Fyrst eftir að umferðarljósin komu í miðbæinn gekk lögreglan fast eftir að þeim væri hlýtt og mun ríkissjóðurinn hafa haft einhverjar smátekjur af sektum. — Nú er nýjabrumið farið af því og bæði farartæki og fótgangandi geta brotið umferðaljósreglurnar fyrir framan. nefið á laganna vörðum, án þess að þeir hafist nokkuð að.

ÓLÖGHLÝÐIN ÞJÓÐ?

ÞAÐ ER sagt, að Íslendingar sjeu ólöghlýðnir.

Skapi sjer lög og reglur sjálfir. Jeg held að þetta sje ekki allskostar rjett. Íslendingar eru í sjálfu sjer ekki ólöghlýðnari en aðrar þjóðir, nema á sumum sviðum.

En hitt er rjett, að þeir, sem eiga að sjá um að lögunum sje hlýtt eru oft um of umburðarlyndir. Hjer í Reykjavík er það engu líkara, en að hinir hraustlegu og glæsilegu lögregluþjónar okkar haldi, að þeír sjeu ráðnir til þess eins að elta ölvaða menn. Þeir hreyfa sig sjaldan þótt umferðarreglurnar sjeu brotnar.”

Ekki voru það fyrst og fremst ölvunarbrot, sem Reykjavíkurlögreglan hafði áhyggjur af um áramót. Maður heyrði talað um algjört hernaðarástand í miðbænum Um áramótin 1947-1948 sögðu blöðin að óvenjuleg skrílslæti hefðu verið á gamlárskvöld, íkveikjur og slys af völdum sprenginga, bílum velt, umsátursástand við lögreglustöðina í Pósthússtræti og rúður sprengdar í Hótel Borg. Þá fundu menn upp það ráð að efna til áramótabrenna á nokkrum stöðum í bænum, dreifa mannfjöldanum og draga hann frá miðbænum. Lukkaðist það ráð bærilega á komandi árum. Annars hafði lögreglan líka staðið í ströngu við að hafa hemil á átakasveitum ungmennagengja sem myndaðar höfðu verið “austan og vestan við Læk”. Blöðunum varð tíðrætt um þessi bardagalið, sem nefnd voru Tírgrisklóin og Sannir vesturbæingar.

Á gamlárskvöld 1950 kynntist ég hinni forboðnu “miðbæjarstemningu”, sem þá var að renna sitt skeið á enda. Við Pétur félagi minn höfðum slegist í för með eldri bróður hans og vinum hans niður að lögreglustöð, þar sem um 200

46

börn og unglingar voru saman komin og efndu til óspekta. Eitthvað var um heimatilbúnar sprengjur en ekki svo að til vandræða horfði. Þessar bombur voru sannast sagna stórhættulegar. Strákar keyptu í búðum viðarkol, brennisteinsduft og saltpétur. Viðarkolin voru fínmulin og þessu svo hrært saman til að gera púður sem var sett í niðursuðudósir, misstórar, og kveikur vafinn úr pappír með púðurinnihaldi. Síðan var dósin gerð rækilega loftþétt með kolsvörtu einangrunarlímbandi. Gat af þessu hlotist geysileg sprenging, sem stundum hafði hinar alvarlegustu afleiðingar. Við pattarnir þurftum auðvitað að apa þetta eftir eldri drengjunum en aðhöfðumst ekki meira en að búa til púður og setja í tóman eldspýtustokk og kveikja í. Hófst þá hið litfegursta eldgos upp úr stokknum með einhverju frusshljóði. Fleiri tilraunir til sprengjusmíði voru ekki á dagskrá.

Nú var alvara lífsins að hefjast með skólagöngu og auknum aga. Fyrir honum fann ég þegar í tímakennslunni hjá Svövu Þorsteinsdóttur, sem rak smábarnaskóla uppi á háalofti í húsi trésmiðjunnar Víðis á Laugavegi 166. Svava var ströng og ákveðin eins og ráða mátti af útliti hennar og fasi. Hún lét nemendur sína ekki komast upp með neitt múður. Sló gjarnan með reglustiku á fingurgómana á okkur ef henni fannst ástæða til og sá færi á. Hjá Svövu lærði ég að lesa og skrifa þannig að ég var vel undirbúinn þegar skyldunámið hæfist. Um þessar mundir ríkti mikið millibilsástand í húsnæðismálum fjölskyldunnar. Við vorum að undirbúa flutning úr bragganum, sem átti að fara í sölu til að losa peninga fyrir innborgun á íbúðina í Bústaðahverfinu, sem var í skólaumdæmi Laugarnesskólans.

47
Erlingur Pálsson, yfirlögregluþjónn, við liðskönnun. Lögregluþjónar gengu um götur og voru reiðubúnir að aðstoða almenning. Tilraunir með nýjungar. Löregluþjónar prófa umferðarstjórn með hátalara og hvítum ermabúnaði á horni Austurstrætis og Lækjargötu. Það tók vegfarendur nokkurn tíma að venjast fyrstu umferðarljósunum við gatnamót Austurstrætis og Pósthússtrætis.

Að þessu sinni skyldi flutt til bráðabirgða í sumarbústað uppi í Seláshverfi, þar sem íþróttsvæði Fylkis er nú. Það var spenna i loftinu á fallegum haustkvöldum, þegar farið var í þetta netta, rauðmálaða sumarhús til að gera það íbúðarhæft fyrir stóra fjölskyldu, að minnsta kosti vetrarlangt. En þegar á reyndi gekk allt á afturfótunum. Þetta var þvílíkt kofaræksni og þröngbýlt eftir því.

Erfitt var að finna bústaðinn þegar kalla þurfti á barnalækninn, fara þurfti langa leið til að biðja um afnot af síma og eini strætisvagninn, sem átti leið um var Lækjartorg-Lækjarbotnar og ferðir hans stopular. Upphitun var lítil sem engin og alltaf hrollkalt í húsnæðinu. Ótryggt rafmagn olli því að mjög dimmt var á öllu svæðinu í kring, þegar straumurinn fór af og svo kastaði tólfunum, þegar vatnið fraus í pípunum í fyrstu næturfrostum. Uppi á vegg var handdæla, sem átti að ná vatninu upp úr vatnsbóli í garðinum en hún var gaddfreðin og skilaði ekki einum einasta dropa þrátt fyrir að bláum blossa úr hitablásturstæki væri beint að leiðslunum.

Til að fyrirbyggja alvarlegt heilsutjón við þessar aðstæður, var fjölskyldan drifin aftur niður í bæ og fékk inni í einu herbergi í kjallaranum hjá Guðrúnu og Jóhannesi á Laugavegi 85. Eldunarplata var frammi á gangi gegnt geymslunni hennar Guðrúnar. Kjallarinn var niðurgrafinn og það var sérkennileg og

óskemmtileg sjón að sjá rotturnar, þegar þær voru að spássera við gluggann. Ekki gat það þó beinlínis talist nein rottuplága heldur eins og búast mátti við vegna lélegs ástands holræsa og niðurfalla um borgina, ekki síst svo nærri fjörunni. Vafalaust hafa kettir Guðrúnar haldið þessum óboðnu gestum i skefjum.

Þrengslin gerðu það að verkum að ég dvaldist löngum stundum hjá Ásu á Frakkastígnum og í bókabúðinni hjá henni. Um nætur svaf ég á dýnu á gólfinu í stofunni. Eins urðu heimsóknir mínar til ömmu Önnu á Sólvallagötunni tíðari. Stundum gekk ég þangað vestur eftir en oftast tók ég strætisvagninn NjálsgötuGunnarbraut-Sólvelli, sem tengdi saman

austur- og vesturhluta borgarinnar. Það þótti ekkert tiltökumál að sex ára strákur væri einn á ferð. Bærinn okkar var enn öruggur og fjöldi barna var á flandri án þess að vera í fylgd með fullorðnum. Segja má að æskulýður á faraldsfæti hafi kynnst bænum sínum býsna vel og orðið vel að sér í áttahagafræðum á þessu flakki.

Amma Anna á Sólvallagötunni var lífsþreytt kona. Skammt var um liðið síðan hún hafði með stuttu millibili misst þrjá syni sína í sjóslysum og eiginmann sinn og dóttur vegna heilsubrests. Hún hafði mikil sár á fótum, sem hún þurfti að þekja tvisvar á dag með þykkum smyrslum og grisju og vefja síðan teygjubindi yfir. Stór rúmfataskúffa var undir rúminu hennar. Skúffan var dregin fram á kvöldin og í henni fékk ég að sofa þegar ég kom til að gista. Hjá ömmu voru Jesúmyndir og teikning af Hallgrími Péturssyni á veggjum í svefnherberginu. Undir augnatilliti þessara traustu verndara fórum við með kvöldbænirnar saman að gömlum og góðum sið. Það var líka að sönnu kristilegur bragur á myndskreytingum og róðukrossum á veggjum uppi á Landakotsspítala, þar sem amma lá oft til lækninga. Þangað fór ég í heimsóknatímum og kynntist St. Jósefssystrum, sem unnu gagnmerkt og fórnfúst starf á spítala sínum. Þær voru allfjölmennar á þessum árum og hvarvetna eftir þeim tekið þar sem þær fóru íklæddar skósíðum svörtum pilsum með langa höfuðklúta í sama lit.

Þegar ég hélt heim á leið var oft farið að skyggja. Mér fannst almyrkvuð Landakotskirkjan fremur minna á draugahús en guðshús. Ég

hraðaði för minni niður Túngötuna, þar sem sæmilega birtu lagði frá ljósastaurum. Leiðin lá upp á Frakkastíg þar sem ég átti eitthvað ólesið í “Liltu gulu hænunni”. Ég var byrjaður í 7 ára bekk í Laugarnesskólanum og stóð andspænis fjölbreyttum áskorunum í hópi nýrra og skemmtilegra félaga.

48

Eins og það hefði gerst í gær

Svona var umhorfs við neðanverðan Frakkastíginn um það leyti sem ég fæddist. Hörður Ágústsson, frændi minn á Frakkastíg 9, teiknaði myndina, séð frá garðhliðinu. Engir bílar sjáanlegir en fagurt útsýni til Esju, Akrafjalls og Skarðsheiðar. Háhýsi hafa nú lokað þeirri glæsilegu fjallasýn.

Undir húsinu var hlaðinn steinkjallari með þvottahúsi þar sem ég var baðaður í þvottakarinu en neitaði að fara í sturtu. Í þvottahúsinu voru tæki og tól sem vöktu óskipta athygli mína. Þvottavinda og rulla. Þessar græjur voru knúnar með handafli og ég lék mér við að snúa þeim eftir baðið.

49

Fréttir af kóngafólki birtust í hinu glæsilega fréttamyndablaði Illustrated London News. Brúðkaupi Elísabetar prinsessu og Filippusar 1947 voru gerð glögg skil. Ása frænka mín keypti það. Ég fletti því reglulega og skoðaði stórar myndir af vettvangi heimsfrétta.

Símaeign var takmörkuð. Brunaboðar voru utan á húsveggjum allvíða. Með því að brjóta glerið og ýta á hnappinn voru boð um eld send á slökkvistöðina.

Disneymyndin “Fantasía”

í Gamla bíó var fyrsta bíómyndin sem ég sá, þá þriggja ára, árið 1947.

Salernismálin í æsku minni.Það gat verið erfiðleikum háð að ná upp í handfangið á keðjunni til að sturta niður.

Í sýningarglugga

í Austurstræti var bókin Rafskinna með rafdrifnum flettibúnaði. Þar birtust auglýsingaspjöld um vörur og þjónustu. Hópar mynduðust við gluggann til að láta sig dreyma á tímum vöruskorts, biðraða og skömmtunar.

50

Það var algjört ævintýri fyrir ungan áhorfanda að sjá Nýársnóttina í Þjóðleikhúsinu 1950. Stórbrotnasst var að sjá álfahvolinn opnast og álfakónginn stíga fram með hirð sinni.

Mér fannst merkilegt að geta gengið til fundar við merkar persónur mannkynssögunnar þar sem þær stóðu steyptar í vax í sýningarsal í Þjóðminjasafninu. Churchill og Roosevelt ásamt Baden Powell og Shakespeare voru þarna m.a. annarra. Óskar Halldórsson, útgerðarmaður, gaf ríkinu Vaxmyndasafnið með styttum af merkisfólki erlendu og innlendu, m.a. sér sjálfum og ríkisstjórn Íslands.

Einnar krónu blár peningaseðill með skjaldarmerki Konungsríkisins Íslands var enn í notkun þegar ég var farinn að fylgjast með. Slegin mynt og auðkenni Kristjáns 10. konungs Íslands og Danmerkur, var lengi í umferð, m.a. 1 eyrir, 2 aurar og 5 aurar.

Ógnir og óttavaldar. Fátt var meira hrollvekjandi en Grýla eins og hún birtist í Vísnabókinni. Nema ef vera skyldi hið ógurlega tígrisdýr sem var uppstoppað til sýnis í Náttúrugripasafninu í Safnahúsinu við Hverfisgötu

52
Næsta hefti: Ný tækifæri og nýjar áskoranir
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.