Enski boltinn

Aron verður frábær á næstu leiktíð

AFP

Stjórnarformaður Coventry City hefur miklar mætur á leikmanni ársins hjá félaginu, íslenska landsliðsmanninum Aroni Gunnarssyni.

Aron sló í gegn hjá Coventry á leiktíðinni eftir að hafa komið frá AZ Alkmaar í Hollandi og sjálfur segist hann sjá Coventry fyrir sér í úrvalsdeildinni fljótlega - þar eigi klúbburinn heima.

"Aron verður frábær á næstu leiktíð," sagði stjórnarformaðurinn Ray Ranson í samtali við Coventry Telegraph. "Hann var búinn að spila meira með landsliðinu þegar hann kom hingað en með félagsliði sínu í Hollandi, en nú þegar hann á heilt tímabil að baki á Englandi, held ég að hann eigi eftir að verða frábær á næsta ári," sagði stjórnarformaðurinn.

Aron segist ánægður með fyrstu leitktíð sína hjá Coventry, en vill meira bæði fyrir sig og félagið.

"Ég hlakka mikið til næstu leiktíðar og vona að við getum bætt okkur. Vonandi getum við líka fengið inn nýja leikmenn til að styrkja liðið. Þetta er úrvalsdeildarfélag að mínu mati. Völlurinn er frábær og ég sé þetta lið alltaf fyrir mér í efstu deild vegna sögu þess," sagði Aron.

Aron hefur verið orðaður við önnur félög í kjölfar velgengni sinnar í vetur, en hann lætur það ekki á sig fá.

"Það er fínt að vita af áhuga annara félaga. Maður er að gera eitthvað rétt ef svo er. Mér finnst ég hafa verið að bæta mig leik frá leik. Það vissi enginn hver ég var þegar ég kom hingað en ég er aðeins tvítugur og á eftir að bæta mig meira. Það þýðir ekki að ég sé fullkominn leikmaður þó ég hafi verið kjörinn leikmaður ársins. Ég á enn eftir að læra mikið undir stjórn Chris Coleman og ég vona að ég geti sest niður fljótlega með honum og stjórnarformanninum og skoðað nýjan samning," sagði Aron.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×