Viðskipti innlent

Róbert stefnir Viðskiptablaðinu: "Ærumeiðandi aðdróttun“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Róbert Wessman stefnir Viðskiptablaðinu.
Róbert Wessman stefnir Viðskiptablaðinu.
Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, hefur stefnt ritstjóra Viðskiptablaðins, Bjarna Ólafssyni, vegna fréttar sem birtist í lok síðasta mánaðar. Fréttin fjallar um stefnu Björgólfs Thors Björgólfssonar á hendur Róberti, en Vísir greindi fyrst frá málinu. Róbert svaraði stefnunni með því að senda ísfötuáskorun á Björgólf Thor, „enda virðist hann þurfa smá kælingu,“ sagði Róbert í ágúst.

Róbert telur fyrirsögn á frétt Viðskiptablaðsins sé „ósönn og verulega meiðandi,“ eins og hann segir í yfirlýsingu um stefnuna. Á forsíðu blaðsins var því haldið fram að hann hefði dregið sér fé sem forstjóri Actavis.

Í stefnunni kemur fram að Róbert krefjist þess að vera dæmdar tvær milljónir króna í miskabætur. Auk þess fer hann fram á að sér verði greiddar um 1,4 milljónir króna til að kosta birtingu dóms í málinu, með áberandi hætti í tveimur víðlesnum dagblöðum. Í stefnunni segir að blaðamaður Viðskiptablaðsins hafi haft samband við samstarfsmann Róberts. „Í samtalinu kom fram að stefnandi hafnaði alfarið þeim ásökunum sem koma fram í stefnunni og að í henni væri farið rangt með helstu atvik málsins og að enginn fótur væri fyrir kröfum Björgólfs Thors.“

„Ærumeiðandi aðdróttun“

Í stefnu Róberts á hendur ritstjóra Viðskiptablaðsins segir einnig:

„Stefnanda var því brugðið þegar hann sé frétt á vefmiðli Viðskiptablaðsins, vb.is, að kvöldi 27. ágúst með millifyrirsögninni „Tóku fjármuni ófrjálsri hendi“ þar sem í stuttu máli var vikið að framangreindri stefnu. […] Þá um kvöldið hafði samstarfsmaður stefnanda samband við Viðskiptablaðið og benti enn á að stefnan væri tilefnislaus og að rangt væri farið með, auk þess sem umrædd millifyrirsögn fæli í sér ærumeiðandi aðdróttun. Leiddi það til þess að skömmu síðar var fréttinni var breytt á vefmiðlinum, þ.e. millifyrirsögninni breytt […]. Þrátt fyrir þetta birtist enn grófari fyrirsögn á forsíðu Viðskiptabalðsins þann 28. Ágúst síðastliðinn þsem stefnandi krefst ómerkingar á í máli þessu. […] aðalfrétt forsíðunnar ber heitið: „Björgólfur kærir Róbert.“ Þar segir að Björgólfur Thor hafi bæði stefnt og kært stefnanda og telji sig hafa orðið fyrir verulegu fjártjóni. Svo segir á forsíðunni: Sakar róbert um að hafa dregið sér fé frá Actavis.“ Það eru þessi síðastgreind ummæli sem stefndandi krefst ómerkingar á með stefnu þessari.

Hér má sjá umrædda forsíðu.
Erlendir samstarfsaðilar geta haft aðgang að umfjöllun

Í yfirlýsingu sem Róbert Wessman sendi frá sér vegna fréttar Viðskiptablaðsins segir:

Ég hef oft verið umfjöllunarefni fjölmiðla í starfi mínu sem forstjóri undanfarin 15 ár. Umfjöllunin hefur yfirleitt verið vel unnin og af sanngirni.

Umfjöllun Viðskiptablaðsins þann 28. ágúst síðastliðin er þó á annan veg en þar er ég sakaður um alvarlegt brot í starfi. Það er ekki bara fjölskylda,  vinir og  samstarfsmenn á Íslandi sem lesa umfjöllun um mig sem birtist hér á landi. Ég starfa í alþjóðlegu umhverfi þar sem samstarfsaðilar og keppinautar geta hæglega haft aðgang að slíkri umfjöllun.

Viðskiptablaðið tók ákvörðun um að birta umfjöllun um stefnu Björgólfs Thor Björgólfssonar á hendur mér áður en málið hafði verið þingfest og ég fengið gögn stefnanda í hendur.  Þetta gerir blaðið þrátt fyrir að blaðamaður og ritstjóri hafi báðir verið upplýstir í samskiptum við samstarfsmenn mína að málatilbúnaður sá sem í stefnunni birtist væri algjörlega tilhæfulaus.  Það hefði verið hægðarleikur fyrir blaðið að sannreyna að stefnan var ekki byggð á traustum grunni.   Blaðið gerir þó meira en að endurflytja ósannar ásakanir sem í stefnunni birtust því á forsíðu er fullyrt að ég sé sakaður um að hafa dregið mér fé sem forstjóri Actavis. Þeir sem lesa stefnuna sjá að enga slíka ásökun er að finna í stefnunni.“

Stefnan frá árinu 2007

Stefna Björgólfs á hendur Róberti snýst um deilur vegna viðskipta sem þeir stunduðu saman árið 2007. Björgólfur fer fram á tvær milljónir evra, eða rúmlega 300 milljóna króna, í skaðabætur vegna viðskiptanna.

Björgólfur stefnir einnig Árna Harðarsyni, sem ásamt Róberti var forsvarsmaður fyrirtækisins Salt Investment ehf. Fyrirtæki í eigu Björgólfs, Novator Pharma, og dótturfyrirtæki Salt Investment, Salt Pharma, voru í jöfnum hlutföllum eigendur félegsins Mainsee Holding.

Þann 7. september 2007 var gerður samningur sem fól í sér að Mainsee, í eigu fyrirtækja Róberts og Björgólfs, keypti samheitalyfjarekstur og vörulager fyrirtækisins DeltaSelect.

Björgólfur telur að fjármunir, eins og kemur fram í stefnunni, sem hann hafi átt tilkall til hafi hafi ekki skilað sér til hans.

Stefnan „tilhæfulaus með öllu“

Þegar Vísir fjallaði um stefnuna í ágúst sagði Róbert Wessman að hann teldi stefnuna með öllu tilhæfulausa: 

„Enn og aftur fara spunameistarar Björgólfs Thors Björgólfssonar af stað og í þetta skiptið er sett fram tilefnislaus stefna sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Björgólfur Thor er oft hugmyndaríkur þegar kemur að því að spinna sögur og í þetta skiptið fer hann af stað með málatilbúnað sem hefur það eina markmið að slá ryki í augu almennings,“ sagði hann.

Í fréttinni í ágúst var einnig vísað í skriflegt svar forsvarsmanna Salt Investment. Þar kom fram að þeir tækju til varna þrátt fyrir að skilja ekki á hverju stefnan er byggð. „Við skiljum ekki stefnuna eða á hverju hún er byggð en verðum náttúrulega að taka til varna og höfum ekki áhyggjur af niðurstöðunni. Hins vegar mun Róbert, úr því að Björgólfur var svo friðlaus yfir því að eiga ekki í dómsmáli við hann, gera gagnkröfur í málinu á Björgólf sem eru mun hærri. Allir vita að Róbert vann dómsmál á hendur Novator uppá 40 milljónir evra sem ekki var hægt að innheimta hjá félaginu.

Eigendur Salt Investments töldu sig þá ekki geta svarað frekari spurningum um stefnuna vegna þess að þeir skildu ekki á hverju hún er byggð. „Við viljum ekki flytja málið í fjölmiðlum, en viljum þó taka fram að málsatvikum er rangt lýst í stefnunni og ísfötubað gæti hjálpað Björgólfi við þessar aðstæður“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×